Helgin er mikil verðlaunahelgi hjá Víkingi Heiðari Ólafssyni. Á morgun tekur hann í Þýskalandi við Opus Klassik-verðlaunum fyrir söluhæstu plötu ársins, túlkun hans á Goldberg-tilbrigðunum eftir Bach. Þá var í vikulokin tilkynnt að hann hefði hlotið Þýsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir sömu plötu. Í umsögn dómnefndar er Víkingi hrósað í hástert fyrir túlkun sína þar sem hann komi hlustendum á óvart með hljómblæ sínum, myndmáli og tónlistarlegri uppbyggingu sem varpi nýju ljósi á tónlist Bachs. Íslenskir áheyrendur geta hlýtt á leik Víkings í Hörpu 20. og 21. október er hann heldur tónleika ásamt Yuja Wang, en á efnisskrá eru m.a. verk fyrir tvo flygla. Tónleikarnir marka upphafið á tónleikaferð þeirra um heiminn. Miðar fást á tix.is.