Ísland er land óþrjótandi tækifæra. Við erum stórhuga þjóð, rík að auðlindum, hugmyndum og hæfileikaríku fólki. Það er full ástæða til að horfa björtum augum til komandi ára.
Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson

Á sunnudag tilkynnti ég að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna væri komið að leiðarlokum. Eftir samtöl við formenn samstarfsflokka okkar um stöðu ríkisstjórnarinnar undanfarna daga var það mat mitt að frekara samstarf myndi ekki skila árangri.

Þegar við endurnýjuðum samstarfið undir forystu Sjálfstæðisflokksins í vor voru markmiðin skýr og við náðum fljótt talsverðum árangri. Verðbólga í dag er sú minnsta í þrjú ár og vextir eru teknir að lækka. Með breyttum útlendingalögum og styrkari löggæslu höfum við gjörbreytt stöðunni á landamærum Íslands, þar sem hælisumsóknum hefur fækkað um meira en helming. Í orkumálum hefur mörgum hindrunum sömuleiðis verið rutt úr vegi. Nýsköpun blómstrar, tækifærin eru fleiri og hagsældin meiri. Það er, þrátt fyrir allt, óvíða betra að búa en á Íslandi.

...