Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands segist hissa á hernaðaraðstoð Tyrklands við Úkraínu, en á sama tíma reyna stjórnvöld þessa aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins (NATO) að vera í góðum og reglulegum samskiptum við Moskvuvaldið.
„Úkraínuher notar vopn frá Tyrklandi til að drepa rússneska hermenn og almenna borgara. Í ljósi þessa getur maður ekki verið neitt annað en hissa þegar stjórnvöld í Tyrklandi reyna einnig að miðla málum í þeirri deilu sem uppi er,“ segir Lavrov ráðherra.
Tyrkir hafa fram til þessa ekki viljað taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi í von um að eiga við þá góð samskipti. Á sama tíma eru vopnaverksmiðjur í Tyrklandi að framleiða vopn sem flest enda hjá Úkraínuher.