Vilberg Valdal Vilbergsson, rakari og heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, lést 6. nóvember á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, 94 ára að aldri.
Vilberg, eða Villi Valli eins og hann var gjarnan nefndur, fæddist á Flateyri 26. maí 1930. Foreldrar hans voru Vilberg Jónsson, vélsmiður á Flateyri, og Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir húsmóðir.
Villi bjó lengstum á Ísafirði og var útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar árið 2018. Hann starfaði sem hárskeri í bænum í 64 ár, frá 1950 til 2014, þar af sem rakarameistari frá 1954. Lærði hann iðnina hjá Árna Matthíassyni á Ísafirði.
Tónlistin lék stórt hlutverk í lífi Villa Valla. Snemma fór hann að leika á hljóðfæri og aðeins 12 ára að aldri lék hann á harmoniku á sínum fyrsta dansleik á Flateyri. Hann lék síðar með mörgum hljómsveitum og einnig með Lúðrasveit Ísafjarðar, sem
...