Upplýsingafulltrúi Landsbjargar, Jón Þór Víglundsson, segir umfang verkefna björgunarsveita landsins í minni kantinum miðað við hvassviðri gærdagsins. Þó að landsmenn hafi sloppið ágætlega að sinni sé ekki þar með sagt að svo verði næst þegar hvessir.
„Við getum notað þennan hvell sem síðustu áminningu um að ganga nú almennilega frá öllum lausamunum fyrir veturinn.“
Appelsínugular og gular viðvaranir voru í gildi fyrir vestan-, norðan- og austanvert landið vegna suðvestanstorms. Hvassast var í Mikladal þar sem vindur var um 32,5 metrar á sekúndu.
Björgunarmenn sátu þó ekki aðgerðalausir þrátt fyrir tiltölulega rólegan dag en ýmsir lausamunir tóku að fjúka bæði um morguninn og síðdegis. Nokkuð var um trampólín og þakplötur á flugi og jafnvel svalir sem voru við það að liðast í sundur.
„Það að trampólín sé að fjúka þegar komið er fram í nóvember er merki um að einhver hafi sofið á verðinum,“ segir Jón
...