Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Gervigreind er ekki fjarlæg framtíð heldur nýtist hún okkur nú þegar til að bæta verulega árangurinn af störfum okkar,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þegar hún kynnti í gær fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda um gervigreind til ársins 2026.
Áslaug Arna sagði að Ísland gæti verið leiðandi afl í ábyrgri og siðferðilegri notkun gervigreindar sem myndi skapa fjölmörg tækifæri og stuðla að velmegun fyrir alla landsmenn. Lykillinn væri að almenningur kynnti sér tæknina og færi að nýta sér gervigreind í sínum störfum. Þá væri uppbygging þekkingar í gegnum menntakerfið, þróun öflugra stafrænna innviða og mótun skýrrar lagaumgjarðar skilyrði fyrir þessari framtíðarsýn.
...