Þjóðarleiðtogar víða um heim fordæmdu í gær ofbeldi sem óeirðaseggir í Amsterdam beittu aðdáendur ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv í fyrrakvöld. Fimm manns voru í gær á sjúkrahúsi eftir árásirnar, og sagðist lögregla borgarinnar hafa handtekið 62 einstaklinga fyrir þátt þeirra í árásunum, sem hófust eftir leik Ajax og Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni.
Stuðningsmenn ísraelska liðsins voru sóttir sérstaklega af stjórnvöldum í Ísrael eftir ofbeldisverkin, og sendi ríkisflugfélagið El Al sex flugvélar til þess að sækja þá. Stjórnvöld hvöttu stuðningsmenn liðsins einnig til þess að forðast að sækja leik körfuboltaliðs félagsins, en það átti að spila í Bologna á Ítalíu í gær.
Að sögn lögreglunnar í Amsterdam hafði slegið í brýnu á milli stuðningsmanna liðanna á miðvikudaginn, en þá tókst að afstýra því að frekari átök brytust út. Fór leikurinn sjálfur vel fram,
...