Dæmi eru um að ferðafólk á eigin vegum í óskipulögðum jöklaferðum á Íslandi lendi í háska og að slys hafi orðið. Gerðist það til að mynda við Blágnípujökul og í íshellum í Hrafntinnuskeri og Kverkjökli. Einnig hefur legið nærri slysum vegna jökulhlaupa í íshellum á austanverðum Breiðamerkurjökli.
Þetta kemur fram í minnisblaði starfshóps sem var skipaður til að afla upplýsinga um banaslys sem varð í skipulagðri jöklaferð á Breiðamerkurjökli í ágúst og skoða öryggi í íshellaferðum almennt. Samantekt hópsins var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun.
Atvikið á Breiðamerkurjökli var fyrsta banaslysið í skipulagðri jöklaferð á Íslandi. Í tillögum starfshópsins að úrbótum kemur m.a. fram að haldin verði skrá um slys og óhöpp í ferðaþjónustu.