Yfir 210 manns eru látnir eftir flóðin miklu á Spáni og tugir eru enn ófundnir. Óttast er að stærstur hluti þeirra hafi einnig farist í hamförunum, en björgunarmenn leita enn á svæðinu. Fréttaveita AFP greinir frá því að heilu bæirnir séu svo gott…
Yfir 210 manns eru látnir eftir flóðin miklu á Spáni og tugir eru enn ófundnir. Óttast er að stærstur hluti þeirra hafi einnig farist í hamförunum, en björgunarmenn leita enn á svæðinu.
Fréttaveita AFP greinir frá því að heilu bæirnir séu svo gott sem rústir einar eftir flóðin og má víða sjá brak og löskuð ökutæki á víð og dreif. Á myndinni hér til hliðar, sem tekin var í austurhluta Valensíu, má sjá hvernig ökutæki hafa hrúgast upp eftir að hafa borist með straumnum. Á myndinni er einnig sjúkrabifreið á vegum Rauða krossins.
Eftirlifendur hamfaranna hafa líkt ástandinu á flóðasvæðunum við vígvöll. Byggingar eru margar illa farnar og mikil áskorun er fyrir fólk að verða sér úti um bæði vatn og matvæli. Eru þetta mestu hamfarir í áratugi.