Úr bæjarlífinu
Gunnar Kristjánsson
Grundarfjörður
Veðrið er eitthvað sem tala má um alla daga. Eftir staðviðrasaman en kaldan október fórum við Grundfirðingar að kannast við okkur á ný þegar hlýnaði skyndilega og sunnanveðrin hreinsuðu allt rusl á haf út með úrhellisregni og vindhviðum á við meðalfellibyl suður í höfum. En þrátt fyrir þessa misvindasömu tíð höfum við að mestu sloppið við stórtjón; lítið um ruslatunnur á ferð og engin trampólín flogið. Einn gámur, líklega tómur, tókst á loft og lagði sig inni í næsta húsagarði en hafði þá lagt niður öfluga girðingu og skaddað húshorn og klæðningu. Nú fyrir helgina gekk enn ein veðurbylgjan yfir og hélt áfram að rífa dúk utan af saltgeymslu á hafnarsvæðinu enda tilgangslaust að reyna að gera við í svona tíðarfari hugsa vafalaust eigendur þessarar geymslu.
...