Samfylkingin reynir nú að fela áform um almennar skattahækkanir

Samfylkingin ætlar að auka ríkisútgjöld um 77 milljarða króna á ári komist hún í aðstöðu til og hækka skatta til að standa straum af útgjaldaaukanum. Þetta telur flokkurinn ábyrga afstöðu en hefur nú áttað sig á að almenningur er ekki sérstaklega spenntur fyrir skattahækkunaráformum upp á 800.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Þetta er líklega ástæða þess að Jóhann Páll Jóhannsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, segir nú að það standi ekki til að hækka tekjuskatt landsmanna. Hann segir að eftir ítarlega skoðun hafi flokkurinn komist að þeirri niðurstöðu að bæta ekki við hátekjuþrepi því að það skili litlu. Þá segir hann flokkinn telja að það væru „röng skilaboð inn í þessar kosningar“ og að auki óréttlátt að biðja vinnandi fólk í landinu, lágtekjuhópa og millistéttina um að greiða hærri skatta.

...