Stjórnmálaumræðan á það til að snúast um hluti sem í stóru samhengi hlutanna skipta ekki öllu máli í okkar daglega lífi. Sjálfsagt getum við öll upphugsað nokkur þannig mál. Það sem skiptir okkur þó öll mestu er að rétt sé haldið á spöðunum í efnahagsmálum. Hagstæðir vextir eru eitt mikilvægasta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Fyrir okkur öll er það keppikefli að forsendur fyrir enn frekari lækkun vaxta skapist. Það gerum við meðal annars með því að taka skynsamlegar ákvarðanir í ríkisfjármálum, tryggja það að hinn frjálsi markaður fái að vera frjáls, styðja við okkar helstu atvinnugreinar og huga að því að hagkerfið vaxi með sjálfbærum hætti. Þetta eru, alla jafna, þættir sem við getum stjórnað.
Það var vissulega jákvætt þegar Seðlabankinn lækkaði vexti í október og hann mun tilkynna vaxtaákvörðun sína í dag. Eðli málsins samkvæmt liggur ákvörðun bankans ekki fyrir þegar þessi pistill er skrifaður.
...