Inga Sæland
Inga Sæland

Sáralítið hefur spurst út af stjórnarmyndunarviðræðum, en þó hefur kvisast út að rætt sé um að ráðherraskiptingin verði 4-4-2, sem hljómar óþægilega mikið eins og leikskipulag án markvarðar, sterk á köntunum en miðjan brothætt.

En er það rétt skipting? Miðað við 21% fylgi Samfylkingar, 16% Viðreisnar og 14% Flokks fólksins væri eðlileg skipting 4-3-3. Enn frekar auðvitað ef Flokkur fólksins hefur þurft að semja frá sér velflest kosningaloforðin, líkt og hvískrað er um.

Sjálfgefið virðist að Kristrún Frostadóttir yrði forsætisráðherra ríkisstjórnar þessara flokka, en þá getur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir valið hvort henni hugnist betur fjármálaráðuneyti eða utanríkisráðuneyti. Í hinu fyrrnefnda felast meiri völd, en vegna ólgu og stríðsógna kann hið síðara að skipta meiru, að Evrópumálunum ógleymdum.

...