Nú þegar við kveðjum árið 2024 og tökum á móti nýju ári fyllist ég þakklæti og ákveðinni bjartsýni þótt staða heimsmála gefi vissulega tilefni til annars. Árið hér heima var viðburðaríkt, með lýðræðið í brennidepli. Í sumar kusum við nýjan forseta, Höllu Tómasdóttur. Eftir stutta og snarpa kosningabaráttu var mynduð ný ríkisstjórn undir forystu þriggja kvenna. Þá var vígður nýr biskup Íslands á árinu, Guðrún Karls Helgudóttir. Það má því segja að þetta hafi verið kraftmikið kvennaár en fyrst og síðast undirstrikaði það að lýðræðið á Íslandi virkar. Það er dýrmætt.
Kosningabaráttan sem fór fram undir lok árs var sú skemmtilegasta sem ég man eftir. Það var ómetanlegt að finna stuðninginn, jákvæðnina og traustið sem þjóðin sýndi okkur í Viðreisn og ríkisstjórnarflokkunum öllum. Fyrir það vil ég þakka.
...