Fann hvernig líkaminn var að deyja

Davíð Goði Þorvarðarson er 27 ára gamall kvikmyndagerðarmaður og fyrirtækjaeigandi. Fyrir ári síðan veiktist hann illa af óþekktum sjúkdómi sem varð til þess að hann þurfti að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð og beinmergsskipti í Svíþjóð. Davíð segir sögu sína í þætti dagsins og hvernig það að hafa óbilandi trú á eigin getu hafi að mörgu leyti bjargað lífi hans. Davíð ásamt föður sínum Þorvarði Goða reka fyrirtækið Skjáskot en þeir feðgar stofnuðu það árið 2019.

Úthaldið sama og ekkert

Í þætti dagsins ræðir Erla Guðmundsdóttir, heilsumarkþjálfi og hlaðvarpsstjórnandi, um áramótaheit og hefðbundna markmiðasetningu í tengslum við heilsu, en rannsóknir sýna að flest áramótaheit fara fyrir bí á fyrstu tveimur vikum nýs árs.

Ólafur Darri fer yfir ferilinn

Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson er gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum dagsins. Ólafur Darri hefur gert garðinn frægan innanlands sem utan og í þættinum fer hann um víðan völl. Ræðir hann meðal annars um farsælan leikaraferil sinn sem byrjaði í leikhúsum landsins en færðist svo yfir á hvíta tjaldið í Hollywood þar sem hann leikur nú hvert stórhlutverkið á fætur öðru.

Allt sem þú þarft að vita um drauga

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og draugaáhugamaður ræðir í þætti dagsins drauga og eðli þeirra. Til eru þó nokkrar tegundir af þeim fyrirbærum sem við alla jafna flokkum sem drauga. Útburðir, tilberar, ástardraugar, brennivínsdraugar og svo þeir hættulegustu - uppvaktir draugar. Bjarni fer yfir þær sögur og sagnir sem hann hefur safnað og hvað má læra af þeim. Sjálfur segist hann engu trúa en það feli í raun í sér að hann útilokar ekki neitt. Kann að vera að uppvakinn draugur úr gamla kirkjugarðinum í Villingaholtshreppi hafi ráðist á forseta Íslands í útreiðartúr fyrir nokkrum árum? Nú er sá tími árs sem álfar og aðrar handanheimsverur eru hvað mest á ferli. Bjarni rifjar upp söguna af bóndanum sem mætti álfum í flutningum og þeir buðu honum gull og gersamar. Að lokum var það svo hangiflotið sem felldi bóndann. Loks fer Bjarni yfir það hvernig rétt er að bregðast við draugum verði þeir á vegi okkar. Vitneskja sem horfin er flestum nútímamönnum.