100% frá hjartanu

Hildur Kristín Stefánsdóttir byrjaði árið með því að senda frá sér Afturábak, fyrstu breiðskífuna á löngum tónlistarferli. Hún segir að platan sé 100% frá hjartanu og öll unnin frá tilfinningum og upplifunum sem hún hefur átt síðustu ár.

„Fjöreggið er stropað“

Leikstjórarnir, handritshöfundarnir og framleiðendurnir, Þorkell Harðarson og Örn Marino Arnarson ræða nýjustu kvikmynd sína Guðaveigar í þætti dagsins. Þeir félagar hafa framleitt og eða leikstýrt sex gamanmyndum á síðustu misserum en ekki notið velvildar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands sem úthlutar styrkjum í slík verkefni. Örn Marino segir að þeir félagar hafi fengið nei við öllum sínum beiðnum frá KMÍ. Þeim hefur þó í einhverjum tilvikum tekist að kreista út lágmarksstyrki sem eru langt undir því sem þörf er á. Þorkell Harðarson segir að í umsögn um síðasta verkefni sem þeir sóttu um styrk fyrir hafi fylgt með í rökstuðningi frá Kvikmyndamiðstöð að fyrir utan að handritið væri ekki fyndið væru þeir félagar enn að smætta og jaðarsetja konur í myndum sínum. Þessu hafnar Þorkell alfarið og vísar til þess að konur í þeirra myndum hafi verið „boss women,“ biskupar og lögreglustjórar á meðan að karlarnir hafi að mestu verið vitleysingar sem hægt er að hlæja að. Báðir leikstjórnarnir, sem framleitt hafa myndir sem fengið hafa góða aðsókn gefa úthlutunarferli KMÍ falleinkunn. Þorkell gengur svo langt að segja að fjöregg kvikmyndaiðnaðarins, KMÍ sé stropað.

Bestu bækur ársins 2024

Gagnrýnendurnir Árni Matthíasson og Ragnheiður Birgirsdóttir fara yfir þær bækur sem þeim þóttu standa upp úr á árinu. Þau nefna alls 30 bækur sem þeim finnst vert að hampa og útnefna skáldsögu ársins, barnabók ársins, glæpasögu ársins, ævisögu ársins og svo mætti lengi telja.

Jötnar hundvísir

Í bókinni Jötnar hundvísir dregur Ingunn Ásdísardóttir upp nýja mynd af hlutverki og eðli jötna og byggir á könnun sinni á elstu heimildum um jötna og jötnameyjar. Hennar kenning er sú að ímynd jötna byggi á mun eldri jarðar- og náttúrutrú sem hafi verið ríkjandi á norðurslóðum áður en ásatrú barst norður álfu.