Markmiðið er að halda þeim á lífi

Maðurinn sem leitar að börnunum okkar og ungmennum, þegar í óefni er komið er Gummi lögga, eins og hann kallar sig eða Guðmundur Fylkisson. Hann hefur í tíu ár leitað uppi 490 ungmenni. Markmiðið með starfinu er að halda þessum ungmennum á lífi fram yfir átján ára aldurinn. Það er sá aldur þegar þau hverfa úr hans umsjón, ef þannig má taka til orða. Gummi er gestur Dagmála í dag og ræðir starfið og sín kynni af kerfinu sem vinnur með þessa ungu einstaklinga. Hann telur ekki rétt að vera með Stuðla sem nánast eina úrræðið fyrir þessi ungmenni því að þar blandast saman krakkar sem eru í neyslu og börn sem glíma við hegðunarvanda. Hann gagnrýnir lokun Háholts í Skagafirði sem var langtímaúrræði og vill meina að við séum að súpa seyðið af því núna. Einkaaðilar hafa tekið við hluta af þessum hópi ungmenna en þar eru orðnir biðlistar og ekki hefst undan. Þá segir hann að huga þurfi betur að aðstandendum og oft á tíðum þeim stóra hópi sem stendur að hverju barni sem lendir á villigötum. Hann hefur orðið vitni að hjónaskilnuðum, sjálfsvígshugsunum og heilsuleysi hjá fólki sem er að bugast undan því gríðarlega álagi sem getur fylgt því mikla verkefni að ala upp barn með fjölþættan vanda og á sama tíma fíknisjúkdóm.

Allir veiðiþjófarnir fóru í eftirlitið

Gestur Dagmála er hreindýraleiðsögumaðurinn Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku. Siggi hefur veitt hreindýr í hálfa öld og síðari hluta þess langa ferils aðstoðað veiðimenn. Áður en til þess kom var hann stórtækur veiðiþjófur ásamt bræðrum sínum og telst honum til að þeir hafi fellt um fimm hundruð dýr í leyfisleysi. Hann er orðinn 67 ára og telur sig eiga eftir hátt í tvo áratugi í leiðsögninni. Siggi er eilífðar sjálfstæðismaður og hefur aldrei kosið annað og mun halda því áfram þar til hann drepst. Siggi fer aldrei út úr húsi öðruvísi en að vera með hníf í beltisstað og gildir einu þó að hann heimsæki höfuðborgina. Hnífinn skilur hann ekki við sig og mætti að sjálfsögðu með hann í stúdíó Dagmála.

„Pirrar mig þessi væll í þjóðinni“

Einn þekktasti geðlæknir þjóðarinnar vinnur mikið með fólki sem glímir við ótta og kvíða vegna þess að ellin sækir að og dauðinn verður raunverulegri og færist nær. Óttar Guðmundsson segir mikilvægt að lifa í núinu og nýta daginn. „Núna er ég hættur í megrun,“ segir geðlæknirinn og tekur það til marks um að lifa lífinu í dag. Hann segist hafa verið í megrunum af og til áratugum saman. Nú er hann hættur slíku. Hann lætur eftir sér að fá sér ís á kvöldin þegar sykurfallið vekur hjá honum óstöðvandi löngun. Óttar hefur verið viðloðandi fjölmiðla áratugum saman og hefur krufið þjóðarsálina og heilbrigði hennar. „Þetta væl í þjóðinni er mjög skrítið,“ segir hann nú þegar við höfum það betra en nokkru sinni fyrr. Hann segir þetta pirra sig. Óttar fer um víðan völl í þætti dagsins og ræðir þar margvíslegu greiningar sem nú tíðkast. Kulnun, ADHD og margt fleira. Ný bók Óttars um skáldið Sigurð Breiðfjörð ber á góma en bókin ber titilinn Kallaður var hann kvennamaður. Hressandi þáttur um viðkvæm mál og almenn.

Tjónið og sorgin er gríðarlegt

Norsk yfirvöld lokuðu nánast fyrirvaralaust fjölmörgum af bestu laxveiðiám landsins í vor. Þetta kom eins og reiðarslag fyrir þúsundir veiðimanna víða að úr heiminum. Fjöldagjaldþrot blasa við mörgum rekstraraðilum og tjónið er margþætt og mikið. Árni Baldursson var staddur í Noregi þegar hörmungarnar dundu yfir. Sjálfur var hann að glíma við ömurlega stöðu þegar hann fótbrotinn skakklappaðist og þráaðist við í von um að geta veitt bestu ár Noregs. Á endanum var hann neyddur í röntgenmyndatöku sem leiddi í ljós að vinstri öklinn var mölbrotinn. Árni Baldursson ræðir þessar tvíþættu hörmungar sem hann gekk í gegnum í Noregi, í þætti dagsins. Klukkustund með Árna Baldurssyni er góð byrjun á vinnuvikunni.