Fóstureyðingar eru aðgerðir sem sjaldan er rætt um á opinskáan máta. Allir virðast hafa skoðanir á fóstureyðingum en þegar öllu er á botninn hvolft hefur samfélagið gefið konunum sjálfum ákvörðunarvald yfir eigin líkama. Monitor ræddi við tvær ungar konur sem báðar hafa tekið þá erfiðu ákvörðun að fara í fóstureyðingu með ólíkum afleiðingum þó.
Viðmælandi Monitor hafði lesið ýmsar hryllingssögur á netinu sem gerðu ákvörðunina um fóstureyðingu erfiðari. Hún segist hafa verið hrædd en er sátt við sitt í dag.
Notaðir þú getnaðarvarnir að staðaldri áður en þú varðst ólétt?
Já, ég hef alltaf verið á pillunni og var tiltölulega nýhætt á henni af því að ég var hætt með kærastanum mínum. Ég var satt best að segja bara búin að gleyma því að ég væri ekki á henni. Ég hafði ekki verið með neinum í langan tíma en fór heim með fyrrverandi eitt kvöldið. Ég hafði verið með þessum strák svo lengi og alltaf verið á pillunni, ég hugsaði ekki einu sinni út í það næstu daga.
Hvernig komstu að því að þú værir ólétt?
Ég var svolítið lengi að viðurkenna það fyrir mér að þetta gæti verið að gerast. Ég vissi þetta samt alveg, ég hafði lagt saman tvo og tvo. Ég gat ekkert borðað nema græn epli í næstum því viku. Svo fann ég að brjóstin voru þrútin og aum. Þegar ég hugsaði til þess að ég hefði sofið hjá og ekki verið á pillunni þá passaði þetta líka við tíðahringinn. Svo óléttuprófið var aðallega til að gera sig ekki að kjána þegar ég færi til læknis. Ég fór svo í sturtu eftir að ég tók prófið og hágrét í sturtunni. Þó svo að ég hefði vitað þetta allan tímann þá var þetta samt sjokk.
Hvers vegna ákvaðst þú að fara í fóstureyðingu?
Við vorum lengi frekar hlynnt því að eiga það heldur en að eyða því. Við vorum í alveg tvær, þrjár vikur að ákveða þetta. Við ákváðum loks í sameiningu að þetta væri ekki sniðugt á þessum tímapunkti í lífi okkar. Mér leið eins og ef að sambandið myndi halda áfram þá væri það bara af því að ég hefði orðið ólétt og við værum að fara að eignast barn. Það var ein af helstu ástæðunum fyrir því að ég vildi ekki eiga barnið. Sambandið var ekki gott, þar var ekkert traust og ég vildi ekki setja þannig pressu á lítið barn. Svo vissi ég að það væru líkur á því að ég þyrfti að standa í þessu ein. Kannski er það eigingjarnt en ég bara treysti mér ekki í það. Mér fannst þetta ekki vera kjöraðstæður til að bjóða litlu barni. Hann var líka að fara til útlanda í nám og þetta hefði líklega stoppað hann í því. Hann þrýsti aldrei á mig að gera þetta, en það spilaði samt inn í að ég vildi ekki stoppa hann frá því að gera það sem hann vildi gera.
Getur þú sagt okkur frá þinni reynslu af fóstureyðingarferlinu?
Maður hringir og fær tíma hjá félagsráðgjafa sem metur hvernig maður er staddur. Eftir það er maður sendur í sónar þar sem athugað hvað maður er kominn langt á leið.
Hjúkrunarfræðingurinn í sónarnum tók eftir því að að ég væri með samviskubit enda er þetta er ekki skemmtileg ákvörðun. Hún hélt í höndina á mér og talaði um hvað þetta væri nú bara pínupons, þetta væri nú bara lítil baun og eiginlega ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Ég bað um að fá að sjá myndirnar eftir á. Hjúkrunarfræðingurinn ætlaði ekki að leyfa mér það fyrst en svo náði ég að sannfæra hana um að það væri allt í lagi. Það var ógeðslega erfitt en ég þurfti að sjá staðfestingu á því að þetta væri alvöru.
Næst tók ég pillu hjá hjúkrunarfræðingnum. Hún lét mig hafa svona stíla sem maður setur upp í leggöngin. Hún sagði mér hvað myndi gerast og að ég mætti búast við því að þetta yrði sárt.
Ég fékk val um að vera heima eða á spítalanum og ákvað að fara heim. Þar setti ég þessa stíla inn og þá var það bara að bíða. Maður á að vera liggjandi svo ég fór að sofa í svona tvo tíma. Ég var alltof stressuð og vildi ekki hugsa of mikið um þetta á meðan að þetta væri að gerast. Þegar ég vaknaði þurfti ég að drífa mig á klósettið. Þetta byrjaði að hreinsast út og mér varð rosalega óglatt á meðan. Ég var bókstaflega bara á klósettinu með fötu að gubba. Þetta stóð yfir í svona tvo tíma þar sem ég var bara á klósettinu, ég komst ekkert annað. Svo þarf maður að kíkja og sjá hvað er að koma af því að maður þarf að vera viss um að allt hafi hreinsast út. Að þurfa að sjá þetta er held ég það ömurlegasta. Verkirnir og svoleiðis eru bara eitthvað sem maður þarf að komast í gegnum en að sjá þetta og vita að næsta skref er að sturta því niður er ömurlegasta tilfinningin.
Eftir það fylgdu blæðingar í tvær, kannski þrjár vikur. Svo fór ég í eftir á skoðun og þá var allt bara búið að hreinsast. Mér leið betur eftir það og ég er mjög sátt við mína ákvörðun í dag.
Hér sést aðeins lítið brot úr umfjöllun um fóstureyðingar á Íslandi. Umfjöllunina og viðtölin í heild má lesa í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.