Að safna „like-um“

Hulda Hvönn Kristinsdóttir
Hulda Hvönn Kristinsdóttir Morgunblaðið/Golli

<strong>Hulda Hvönn Kristinsdóttir kom nýlega í <a href="/monitor/frettir/2013/10/10/fostureyding_kom_ekki_til_greina/">viðtal til Monitor</a> sem ungt foreldri auk þess sem hún skrifaði á dögunum <a href="/monitor/frettir/2013/11/13/mig_langar_ad_deyja/">pistil um hamingjuna og holdafar</a>. Hér skrifar hún um „like“-menninguna á netinu.</strong>

Ég var beðin um að koma í viðtal til Monitor sem varðaði unga foreldra. Ég eignaðist sjálf barn þegar ég var 18 ára og kom því vel til greina. Eftir að hafa setið niðri í Stúdentakjallara í góðu spjalli með fréttamanni Monitor kom ljósmyndari og smellti nokkrum myndum af mér og dóttur minni fyrir utan háskólann. Í þakklætisskyni fyrir tímann sem ég lét í té fékk ég svo myndina senda í tölvupósti. Að sjálfsögðu greip ég tækifærið og skellti henni á Facebooksíðuna mína. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði ekki átt von á. Meðalmanneskjan ég fór að fá fleiri „like“ en ég hafði nokkru sinni fengið áður, og ályktaði ég sem svo að það væri vegna þess að ég var orðinn vísir að einhvers konar opinberri persónu. Ég fylgdist (óþarflega) spennt með framvindu mála. Fólk (sem ég hitti sjaldnar en ég kæri mig um að viðurkenna) deildi greininni minni, „like-aði“ myndina mína, skildi jafnvel eftir vinaleg ummæli við hana. Eins kjánalegt og það kann að hljóma þá dundaði ég mér jafnvel við að lesa þau ef ég varð niðurdregin, því í hvert einasta skipti hvarflaði að mér: „Vá … fólki er í alvöru ekki alveg sama.“

Svo leið tíminn og til þess að vera í takt við það sem tíðkast breytti ég nú á endanum um forsíðumynd. Nokkrum sinnum jafnvel. Svo gerðist það eitt kvöldið þegar ég var eitthvað að renna í gegnum myndirnar mínar að ég rekst eitthvað óþarflega harkalega í lyklaborðið og svo, eins og dögg fyrir sólu, hvarf áðurnefnd forsíðumynd með öllum sínum „like-um“, ummælum og tilheyrandi. Í kjölfarið fann ég fyrir sorg, og reiði, afneitun jafnvel. Með klaufaskapnum í mér hafði ég eytt einu sönnuninni sem ég hafði um að heiminum væri ekki alveg sléttsama. Í stuttu máli, þá fór ég í fýlu. Það leið ekki á löngu þó áður en ég fór að skammast mín. Var ég virkilega orðin svona efnishyggjukennd? Allt í kringum mig er fólk sem ég elska og elskar mig og sýnir það á svo margan annan hátt heldur en að láta mér í té sekúndu af degi sínum til þess að smella á „like“-hnappinn.

Í miðjum próflestrinum lagðist ég í þungar pælingar um þetta. Í pistli sem birtist á vef Monitor velti ég því fyrir mér hvort hamingjan kæmi með réttu holdafari. Niðurstaða mín var sú að svo væri ekki. En kemur þá hamingjan ef til vill með því að heimurinn lýsi yfir samþykki sínu á þér með „like-um“? Ég fann vissulega fyrir einhvers konar óhamingju þegar ég „glataði“ þessari lófafylli sem ég hafði fengið í kjölfar greinarinnar um mig. Og ég fylltist virkilega einlægum áhyggjum um að mér myndi aldrei hlotnast þessi skammvinna sæla aftur! Já, ég skammaðist mín vissulega í kjölfar þessarar lítið merkilegu óhamingju minnar. Líf mitt var allt í einu hætt að snúast um það að sækjast eftir einhvers konar eiginlegri umhyggju, efnisleg umhyggja í formi Facebook-„like-a“ hafði komið í staðinn fyrir hana. Það versta var e.t.v. að ég vissi að margir voru mun verr staddir en ég hvað þetta varðaði. Og það olli mér réttmætum áhyggjum.

„Like“ eru svosem ekki slæm í sjálfu sér. Þau eru ágætis aðferð til þess að láta í ljós skoðanir sínar á einhverju. Það er hins vegar varhugavert þegar þau eru farin að stjórna líðan okkar svo mikið að dagurinn er ónýtur ef „like-in“ standast ekki væntingar. Niðurstaða mín er þessi: Fjöldi „like-a“ er ekki mælikvarði á vinsældir þínar, fegurð eða verðleika. Manneskja sem fær mörg „like“ þarf ekkert fram yfir þann að hafa sem fær færri. Forðumst að láta þetta hafa áhrif á álit okkar á manneskjum, sérstaklega okkur sjálfum. Lífið er ekki keppni í „like-um“.

 Hulda Hvönn Kristinsdóttir

monitor@monitor.is

 

Sjáðu meira í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir