Nýlega birtist frétt í myndbandsformi á fréttaveitu Vísis sem hefur verið mikið í kastljósinu. Sat þar ein ágæt kona og lýsti reynslu sinni á því þegar henni var byrlað slævgandi lyf þegar hún fór út á lífið. Virtist mér flest koma heldur skakkt út úr henni, málsfarsvillur læt ég nú liggja milli hluta en snerist gagnrýni flestra að því þegar hún hélt því fram að nauðgarar sæktust náttúrulega mest megnis eftir sætum stelpum, þeir sættu sig ekkert bara við einhverjar „lala-stelpur" eins og hún orðaði þetta svo pent.
Mér urðu þessi ummæli hennar hugleikin. Í hinu umdeilda viðtali hvatti hún þær fáu, fallegu konur sem til eru á Íslandi til þess að standa saman og hjálpa hvor annarri að koma í veg fyrir byrlanir og annað athæfi sem leitt getur til nauðgunar. Mér fannst þetta undarlegt og ummælin einkar óheppileg og vanhugsuð. Er þetta virkilega afstaða fólks í dag? Eiga þeir sem verða kynferðislegri áreitni að hugga sig við það að þeir hafi þá að minnsta kosti staðfestingu á því að þeir séu útlistlega aðlaðandi? Er nauðgun orðinn einhvers konar fegurðarstimpill? Ekki hljómar þetta vel. Hvernig væri heimurinn ef þetta væri almenningsálitið? Ég reyndi að sjá fyrir mér hvernig hlutirnir myndu æxlast.
Móðir sem situr á rúmstokki vonsvikinnar dóttur sinnar, strýkur henni um vagnann. „Svona, svona Gunna mín. Ég er viss um að þér verði nauðgað einn daginn. Þú ert falleg stelpa, sannaðu til." Stelpur sem bíða með eftirvæntingu í dimmum húsasundum eftir að einhver ölvaður eða örvæntingarfullur karlmaður komi og misnoti þær. Pískrandi stelpuhópar í skólanum sem gjóa augunum til einnar, einmana stúlku sem stendur skömmustuleg úti í horni. „Henni hefur ekki einu sinni verið nauðgað". Í stað bandarísku raunveruleikaþáttaseríunnar „The Bachelor" værum við með „The Rapist".
Það sér það hver maður að þetta er fáránlegur uppspuni, þessi heimur er ekki til og hæpið að hann verði það nokkurn tímann, sem betur fer.
Nauðgun hefur oft ekkert með útlit viðkomandi að gera. Hver sé hvatinn bak við nauðgun ætla ég ekki að fullyrða um, enda skil ég þennan verknað engan veginn eða þá sem framkvæma hann, en ég get þó lofað að það eru ekki einungis fegurðardrottningar sem lenda í þessum hroðalega verknaði heldur eru fórnarlömb á öllum aldri, af báðum kynjum og á öllum stigum lífsins. Skilaboð þessarar ágætu konu eru vissulega góð og kannski áttaði hún sig ekki á því að óheppilega orðaðar setningar í sjónvarpi geta vakið mikla (og stundum réttmæta) reiði landsmanna.
Einu langar mig þó við að bæta, varðandi hugmyndina hennar að hjálpar-appinu. Í stuttu máli var því ætlað að virka þannig að ef stúlku er byrlað getur hún teygt sig í símann sinn og notað appið til þess að virkja einhverns konar neyðarhnapp. Birtist þá mynd af henni og nákvæm staðsetning hennar í símum þeirra sem einnig hafa appið. Enn og aftur þá er ásetningurinn góður en mig langaði helst að benda á að þeir sem líklegast hafa mestan áhuga á því að vita hvar ósjálfbjarga og varnarlausar stelpur undir áhrifum nauðgunarlyfa eru, eru líklegast akkúrat mennirnir sem þær eru hvað mest að reyna að forðast. Ég hugsa að þetta hlyti fljótt nafnið „nauðgunarappið" en ekki „hjálparappið".
Sífellt meira finnst mér bera á því að fólk hugsi ekki áður en það talar, og ætti sú regla sérstaklega að eiga við á opinberum vettvöngum eins og sjónvarpsviðtölum, þá sérstaklega sem birt eru í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Nauðganir er ekki hægt að taka til baka en orð ekki heldur. Margt sem maður segir hefur áhrif á þá sem á mann hlýða og slíku er erfitt að breyta. Persónulega langar mig ekki að lifa í heimi þar sem það þykir hrós að vera nauðgað.
Hulda Hvönn Kristinsdóttir