Allir keppendur Seljaskóla æfa fimleika og flestir hafa gert það lengi. Þá er spurning hverju það skilar þeim í kvöld þegar úrslitin í Skólahreysti fara fram. Seljaskóli hefur verið ofarlega í undankeppnum síðustu ára en þetta er í fyrsta skipti sem hann kemst í úrslitin.
Úrslitakeppnin í Skólahreysti fer fram í Laugardalshöll klukkan 19.40 í kvöld. Af því tilefni hefur Monitor kynnt öll liðin sem keppa. Þrjú lið voru kynnt á degi hverjum og að lokum kynnumst við liði Seljaskóla.
Seljaskóli var efstur í sínum riðli en í honum kepptu skólar úr Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Grafarholti. Liðið náði jöfnum og góðum árangri í öllum greinum í undanúrslitunum og koma krakkarnir því vel stemmdir til leiks í kvöld.
Búið er að koma upp Hreystivelli við Seljaskóla sem eflaust hefur nýst liðinu vel við æfingar fyrir úrslitin. Frá því að Hreystivöllurinn var settur upp í fyrra hafa fjölmargir áhugasamir nemendur skólans spreytt sig þannig að framtíðin er björt í Seljaskóla.
Liðið er skipað þeim Birnu Aradóttur, Daníel Orra Ómarssyni, Arnþóri Daða Jónssyni og Viktoríu Sif Haraldsdóttur. Öll æfa þau fimleika, Daníel Orri og Viktoría Sif æfa einnig knattspyrnu og Birna hefur æft körfuknattleik, knattspyrnu og einnig samkvæmisdans.
Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Arnþór Daði spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan Daníel Orri keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum: Birna keppir í armbeygjum og hreystigreip, en Viktoría Sif tekur þátt í hraðaþrautinni.