Tabú eða bannorð er eitthvað sem okkur finnst við sífellt vera að uppræta. Margir myndu segja að í dag mætti tala um svo gott sem allt án þess að þurfa að blygðast sín; kynhneigð, kynfæri, heimilisaðstæður og hvað eina sem fólk hefur einhvern tíma upplifað sem ástæðu til þess að skammast sín.
Án þess að vera að gera lítið úr þeirri framför sem hefur orðið á sviði hugsunar- og tjáningarfrelsis þá rakst ég á áhugaverða krækju (e. link) á ferð minni um veraldarvefinn um daginn sem sverti eilítið hugmynd mína um málfrelsið sem ég taldi mig búa við. Þetta er viðkvæmt málefni, ef til vill gerast þau ekki viðkvæmari, en ég ætla þó að ríða á vaðið og reyna eftir bestu getu að skrifa hugsanir mínar án þess að þær misskiljist og særi fólk eða reiti til reiði.
Geðsjúkdómar hafa verið mikið í kastljósinu síðustu ár þar sem sífellt fleiri standa upp og tala máli þeirra sem þjást þeirra vegna. Einn geðsjúkdómur hefur þó orðið útundan í þessari umræðu, og er þá ekki að undra hvers vegna. Barnaníð eða pedophilia er allt of vel þekkt í samfélagi mannsins í dag og gerist það ósjaldan að upp komi mál í fréttum sem beinist að barnaníði og glæpsamlega starfsemi í kringum það. Það sem mér finnst hins vegar skorta í samfélagið í dag, ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim, eru lausnir við þessu vandamáli. Ég held að flest getum við verið sammála um það að barnagirnd er sjúkleg og afbrigðileg árátta eða hegðun sem ekki á að fá að þrífast óáreitt frekar en aðrir geðsjúkdómar (og já ég er hér með að staðfesta það að ég lít á þetta sem geðsjúkdóm án þess að hafa nokkrar klínískar sannanir þess í höndunum).
Í dag hefur mikið verið í umræðunni að dómsvaldið sé of tregt til að hegna nægilega fyrir slík brot þar sem að meintir barnaníðingar fá stundum aðeins örfáa mánuði, jafnvel skilorðsbundna dóma, á meðan afbrotamenn eiturlyfja- og ávanaefnamála fá mun lengri og strangari dóma. Ég held að vandamálið liggi hins vegar ekki þar. Af minni reynslu er ekki nóg að reita bara ofan af illgresi, það þarf að ráðast á rótina, og gildir það um flest í þessu lífi. Því þurfum við að ráðast að rót þess vanda sem barnagrind er fyrir samfélagið, og eins og við vitum flest þá er auðveldara er að ráða við sjúkdóma því fyrr sem þeir eru greindir.
Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim sem þjást af barnagirnd, og segir fræðimaður á þessu sviði í viðtali að það sé aðallega af þeim sökum að samfélagið fordæmi ekki aðeins barnaníðinga heldur eigi þeir sem sérhæfa sig í rannsóknum á barnagirnd einnig erfitt uppdráttar. Þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar benda þó til þess að þeir sem þjást af barnagirnd komast yfirleitt að því á táningsárunum, milli 14 og 18 ára. Þegar það gerist þá eiga þeir í engin hús að vernda, fjöldi sálfræðinga og geðlækna sem sérhæfa sig í málum þeirra er hverfandi, fæstir sem þjást af barnagirnd eru tilbúnir til þess að opna sig fyrir vinum eða vandamönnum af ótta við fordæmingu og finni þeir sálfræðing sem er tilbúinn að hlusta á þá kemur upp sá vandi að þeim ber lagaleg skylda til að tilkynna til lögreglu sé hætta á að sjúklingur þeirra brjóti á réttindum annarra, sem er jú ein helst hættan þegar um barnagirnd er að ræða. Í stað þess að geta leitað sér hjálpar við sjúkleika sínum lokast þeir sem þjást af barnagirnd inn í eigin líkama með eigin hugsunum með engar leiðbeiningar um hvernig best sé að taka á þeirra andlegu vandamálum. Í stað þess að geta í öruggu umhverfi með sérfræðingi reynt að leysa úr þessu þá er vandamálið látið grasserast og illgresið fær að þrífast að vild þar til að að það er orðið of seint. Viðkomandi ræður ekki lengur við langanir sínar og drýgir hina æðstu synd sem samfélagið veit um í dag.
Nýverið var tekið viðtal við ungan mann sem þjáist af barnagirnd. Honum og fjölskyldu hans til verndar var rödd hans brengluð fyrir viðtalið og nafni hans haldið leyndu en hann kallaður Adam til einföldunar. Hann segir sögu sína, frá áfallinu að verða það ljóst að hann væri haldinn barnagirnd og viðbrögð hans við því. Að hans sögn þá var þetta eitthvað sem hann réði ekki við, og þó hann hafi aldrei og myndi aldrei brjóta af sér beint gegn barni þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hann finni fyrir kynferðislegri aðlöðun til barna allt niður í þriggja ára aldur. Þó svo að Adam segist aldrei hafa brotið gegn barni með beinum hætti hlóð hann gjarna niður klámfengnu efni af netinu sem innihélt einstaklinga undir lögaldri þegar hann var yngri. Þegar hann fann myndband af misnotkun 18 mánaða barns gerði hann sér grein fyrir því að hann væri sjúkur og sór þess eið að horfa aldrei aftur á slíkt efni. Hann var sextán ára gamall.
Eiginlega óafvitandi bjó hann til styrktarhóp á netinu fyrir ungt fólk sem haldið er barnagirnd. Fólkið í hópnum á einnig það sameiginlegt að hafa aldrei brotið af sér gegn börnum með beinum hætti. Margt í frásögn Adams kemur manni í opna skjöldu. Allt fyrir utan umræðuefnið minnir mann ekki á einhvern sem haldinn er svo brenglaðri áráttu; frásögnin, talsmátinn og orðaval endurspeglar allt sem virðist vera eðlilegur og nokkuð vitiborinn unglingur. Allar staðalímyndir um barnaníðinga svifu út um gluggann og mér varð tvennt ljóst. Annars vegar að barnaníðingar eru ekki bara gamlir, sveittir karlar sem fara ekki í sturtu og klippa ekki á sér hárið, menn sem aka um í sendibílum með stóra Machintosh dós í framsætinu. Þeir eru ósýnilegir, blandast inn í samfélagið og eru af báðum kynjum, á öllum aldri og af öllum stigum samfélagsins. Í öðru lagi var það sem kannski merkilegra var, að ekki allir barnaníðingar vilja vera barnaníðingar, sem mér finnst öllu verra, því það þýðir einfaldlega að hér sé um að ræða fólk sem vantar hjálp og vill leita sér hjálpar en getur ekki fengið hana.
Margir sem ég reyni að ræða við um þetta fara í baklás og ásaka mig um að koma barnaníðingum til verndar, að ég sé að reyna að afsaka gjörðir þeirra með því að segja að ástand þeirra sé í raun sjúklegt og ekki endilega eitthvað sem þeir geti að gert. Kæri lesandi, ég er ekki að segja að samfélagið hafi kallað þetta yfir sig, langt því frá og það er enn fjarri lagi að ég sé að reyna að afsaka gjörðir barnaníðinga. Sjálf á ég barn og það er einmitt þess vegna sem að mér finnst mikilvægt að ráðast að rótum vandans og reyna að koma í veg fyrir brotin áður en þau eiga sér stað. Það að draga menn fyrir dóm kann að vera réttlæti í augum dómkerfisins en það er engin réttlæting fyrir fórnarlömbin, brotin sem þau hafa þurft að þola verða aldrei afturkölluð úr lífi þeirra, sama hve strangur dómurinn kann að vera.
Við sem samfélag verðum að gera okkur grein fyrir að þetta er ekki bara eitthvað tilfallandi, þetta er raunverulegt vandamál sem fer ekki fyrr en að við horfumst í augu við það og reynum að finna aðferð til þess að koma í veg fyrir vandann.
Viðtalið við Adam má heyra í fullri lengd á síðu UpWorthy og ég hvet alla til að hlusta á það allt áður en þeir kasta fyrsta steininum. Vanþekking getur verið hættulegust allra lasta.
Hulda Hvönn
monitor@monitor.is
Tekið er á móti aðsendum greinum á monitor@monitor.is