Það er oft vandmeðfarið að telja upp endanlegan lista yfir bestu myndir tiltekinna leikara og þá sérstaklega þegar kemur að einstaklingi með jafn langan starfsaldur og fjölbreitta afrekaskrá og Robin Williams.
Gæði eru afstæð og alhæfingar almennt afleitar. Til að mynda hefur Williams leikið þó nokkur illmenni afspyrnu vel sem og dramatísk, þyngri hlutverk, en Monitor kýs helst að minnast hans með brosi. Myndirnar sem hér fylgja eiga það allar sameiginlegt að hafa hrært við hjartarótum tugþúsunda einstaklinga um allan heim, oftar en ekki sérstaklega fyrir sakir Williams.
1. Mrs. Doubtfire.
Williams leikur nýfráskilinn mann sem villir á sér heimildir til þess að geta eytt meiri tíma með börnunum sínum. Niðurstaðan varð fóstran Mrs. Doubtfire, sem var auðvitað á margan hátt ýkt og fjörug en í leik Williams mátti einnig sjá mikla mikla tilfinninganæmni.
2. Good Will Hunting.
Williams hafði þrisvar sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna þegar honum áskotnuðust þau loks fyrir leik sinn í Good Will Hunting. Persóna hans, Sean Maguire, var sálfræðingur sem hvatti Will Hunting til að horfast í augu við raunveruleikann.
3. Aladdin.
Þrátt fyrir að andinn hafi verið teiknaður er auðvelt að sjá Williams fyrir sér leika eftir líkamshreyfingar hans og enginn hefði getað veitt persónunni viðlíka gleði með raddblænum einum saman. Andinn er eitt af minnistæðustu hlutverkum Williams en sem dæmi má nefna að bandaríska kvikmynda-akademían tísti mynd af andanum og Aladdín með orðunum „Andi, þú ert frjáls,“ til minningar um grínistann.
4. Dead Poets Society.
Kennarinn John Keating fær nemendur sína til að sífa í sundur kennslubækur, hoppa upp á skifborð til að öðlast nýtt sjónarhorn á hlutina og læra að elska ljóð. Carpe Diem er viðkvæðið í þessari fallegu mynd sem hefur kennt ótal ungum mönnum og konum að meta bókmenntir.
5. Good Morning Vietnam.
Myndin er byggð á sönnum atburðum en í henni leikur Williams útvarpsþáttastjórnanda sem býður yfirvaldinu birginn í Víetnamstríðinu. Hlutverkið færði honum sína fyrstu óskarstilnefningu.
6. Hook.
Williams leikur Pétur Pan sem snýr aftur eftir að hafa gleymt öllu um Hvergiland. Sagan er hugljúf og ævintýrin eru óþrjótandi. Hlutverkið hefur verið sérlega hugleikið mörgum aðdáenda Williams í kjölfar andláts hans en margir vilja trúa því að nú sé hann kominn aftur til Hvergilands þar sem hann geti leikið sér og hlegið að vild á sinn einstæða barnslega hátt.
7. The Birdcage.
Hlutverki Nathan Lane í The Birdcage fylgir meiri glamúr og yfirgengnari húmor en Williams stendur fyrir sínu að vanda sem Armand Goldman, samkynhneigður gyðingur sem rekur dragklúbb á South Beach. Williams er lágstemmdari en oft áður en daðrar að sjálfsögðu við yfirdrifna grínið sem hann er hvað frægastur fyrir.
8. What Dreams May Come.
Ein átakanlegasta kvikmynd Williams segir frá leit látins manns að sátt í lífinu eftir dauðann og viðleitni hans til að bjarga konu sinni. Williams stýrir áhorfendum í gegnum allan tilfinningaskalann af mikilli fágun en sorg persónu hans þykir mörgum sína með sanni hvers Williams var megnugur sem leikari.