Tyllt niður tánni

Gísli Sigurðsson

Tyllt niður tánni

Kaupa Í körfu

Þeir sem aka þjóðveginn undir Eyjafjöllum hafa ef til vill tekið eftir sérkennilegu húsi skammt vestan við Drangshlíð. Baksviðið þar er einhver magnaðasti kaflinn af mörgum góðum sem auganu mætir undir Eyjafjöllum og kann það að draga athyglina frá þessu litla húsi. En það er óneitanlega eitthvað sérstætt og merkilegt við steinhús með fallegu skreyti uppi á göflunum og bogadregnum gluggum sem venjulega sjást aðeins á kirkjum. Þeir sem nema staðar sjá þó fljótt að húsið er í niðurníðslu; gluggar brotnir svo þar hlýtur bæði að rigna og snjóa inn. Þetta hús, sem Ungmennafélagið Eyfellingur byggði árið 1927 af svo mikilli alúð, heitir Dagsbrún og var samkomuhús sveitarinnar framyfir 1990. Það var byggt á þann hátt að hleðslusteinar voru steyptir úr fjörusandi og húsið var hlaðið úr þeim og síðan múrhúðað. Það leysti af hólmi lítið timburhús í Rauðafelli, sem var í senn þinghús og barnaskóli og hafði verið skilnaðargjöf Þorvaldar á Þorvaldseyri til sveitarinnar þegar hann yfirgaf hana. Í Dagsbrún var leiksvið; þar var dansað og þar voru haldin þorrablót og aðrar samkomur eins og gengur. Húsið var gert upp 1974 og þá tók formaður Eyfellings, Ólafur Eggertsson, myndina sem hér fylgir. Síðar var Dagsbrún seld, en eigandinn sýnir húsinu ekki sóma. Það er dapurlegt fyrir Eyfellinga að sjá þetta merkilega hús grotna niður og er hér kallað eftir menningarlegum metnaði því til björgunar.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar