Bútasaumur

Bútasaumur

Kaupa Í körfu

Óhætt er að fullyrða að ómæld og óeigingjörn vinna liggi að baki verkefninu Teppi handa hetjum, sem félagar í Íslenska bútasaumsfélaginu standa fyrir. Á síðasta ári fengu 46 langveik börn teppi frá félaginu og í ár eru teppin 18. "Þetta var afskaplega vel þegið," segir Borghildur Ingvarsdóttir, ein stjórnenda verkefnisins. "Við létum teppin í hendurnar á Umhyggju, Félagi til stuðnings langveikum börnum í fyrra og báðum stjórnendur þar að ráðstafa teppunum til þess hóps barna, sem þeim fannst að ættu helst skilið að fá þau svona í fyrsta sinn að minnsta kosti og það voru Einstök börn, sem fengu teppin." Þetta var í fyrsta sinn sem teppi voru afhent en ætlunin er að gefa teppi á hverju ári. Hugmyndina á Dagbjört Guðmundsdóttir, en hún kynntist því á sjúkrahúsi í Noregi að veikum börnum er gefið teppi. "Nafnið, Teppi fyrir hetjur, var hugsað til heiðurs börnunum því þau eru hetjur og þau og fjölskyldurnar standa sig frábærlega í veikindunum," segir Borghildur. "Aðstandendum og börnunum þykir vænt um þessa gjöf og höfum við lagt ríka áherslu á að börnin velji sín teppi sjálf. Þau fara í gegnum bunkann og velja sér sitt teppi. Mér skilst að þau séu mjög ákveðin þegar þau sjá "sitt" teppi, og segja "ég vil þetta og ekkert annað." Myndatexti: Saumaskapur: Guðný Benediktsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir Kelleher eiga heiðurinn að þessu teppi.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar