Verkefnið Ungir vísindamenn

Þorkell Þorkelsson

Verkefnið Ungir vísindamenn

Kaupa Í körfu

ER UNNT að kenna köttum að leita að fíkniefnum og hefur umhverfi áhrif á sköpunargáfu vélmenna? Þetta eru þær rannsóknarspurningar sem lagðar eru til grundvallar þeim tveimur rannsóknum ungra íslenskra vísindamanna er verða framlag Íslands í Evrópukeppni ungra vísindamanna sem fram fer í Dyflinni á Írlandi dagana 25.-30. september nk. Fulltrúar Íslands í keppninni eru vinningshafar í Landskeppni ungra vísindamanna á Íslandi árið 2004 sem fór fram í Háskóla Íslands 19. maí sl., en íslensku þátttakendurnir kynntu verkefni sín á blaðamannafundi í húsakynnum Íslandsbanka í gær. Við það sama tækifæri skrifuðu Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, Ágúst Ingþórsson, forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, og Einar Sveinsson, stjórnarformaður Íslandsbanka, undir samstarfssamning milli Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands og Menningarsjóðs Íslandsbanka og Sjóvár-Almennra um verkefni er nefnist Ungir vísindamenn á Íslandi. Sjóðurinn mun á næstu þremur árum leggja verkefninu til samtals 4,5 milljónir eða 1,5 milljónir árlega. Að sögn Ágústs er stuðningur sjóðsins grundvöllur og forsenda fyrir framgangi verkefnisins á komandi árum, en þar sem styrkurinn er til þriggja ára er hægt að tryggja ákveðna samfellu í starfinu sem er lykilatriði. Sveinn hafði á orði við undirskriftina að það væri sér sérstök ánægja að Menningarsjóður Íslandsbanka og Sjóvár-Almennra fengi að styðja við unga vísindamenn með þessum hætti. MYNDATEXTI:Einar Sveinsson, Ágúst Ingþórsson, Páll Skúlason og Bjarni Ármannsson (l.t.h.) hér ásamt afreksfólkinu unga, Hrafni Þorra Þórissyni, Stefáni Þór Eysteinssyni, Evu Maríu Þrastardóttur og Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar