Kaffibollar til að spá í

Kaffibollar til að spá í

Kaupa Í körfu

Þeir eru fáir Íslendingarnir sem ekki hafa heimsótt spákonu einhvern tímann á ævinni, nú eða leyft gamalli frænku, sem veit lengra nefi sínu, að glugga í kaffibollann sinn til að forvitnast um framtíðina. Sérstakir spábollar, sem byggðir eru á íslensku hugviti, eru nú komnir á markað og ættu að auðvelda öllum þorra almennings að skyggnast inn í framtíð vina og vandamanna. Spábollarnir nefnast Fortune Cup og eru úr beinpostulíni, en þeir eru seldir tveir og tveir saman í sérsmíðuðu skríni úr víetnömskum gúmmíviði, ásamt sérstöku spákaffi og bók er kennir listina að lesa í bolla. Hugmyndina að bollunum á Hafsteinn Helgason, verkfræðingur hjá Línu.Neti, en mikil vinna liggur að baki þróun spápakkans. Þannig voru m.a. þrjár spákonur hafðar með í ráðum við gerð bókarinnar, sérstök kaffiblanda fengin frá Kaffitári og val spábollanna vandlega úthugsað með tilliti til þess að kaffið loddi vel við þá og að lögunin auðveldaði allan lestur. Spábollarnir hafa aukinheldur unnið til verðlauna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir viðskiptaáætlun sem unnin var af Sólveigu Eiríksdóttur, nema í Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Spábollarnir fást í versluninni Búsáhöldum og hjá Kaffitári og kosta 5.980 kr. og hafa að sögn Hafsteins rokið út þá rúmu viku sem þeir hafa verið í sölu. Spábollarnir, sem hugsaðir eru sem óvenjuleg gjafavara, eiga líka eftir að fara á erlendan markað, en frekari upplýsingar um bollana er að finna á vefsíðunum www.spabolli.net eða www.fortunecup.net.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar