Söngkeppni framhaldsskólanna

Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Söngkeppni framhaldsskólanna

Kaupa Í körfu

Ég var með hálsbólgu," sagði Eyþór Ingi Gunnlaugsson þegar blaðamaður ræddi við hann í gær. Eyþór bar sigur úr býtum í Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrrakvöld, fyrir hönd Verkmenntaskólans á Akureyri, VMA. Hálsbólgan kom ekki, að því er virðist, niður á gæðum söngsins þar sem Eyþór sýndi mikla rokkstjörnutakta í anda Ian Gillan og lék sér að háu nótunum. Eyþór söng einn af slögurum Deep Purple, Perfect Stranger, sem hét í íslenskri þýðingu "Framtíð bíður", við mikinn fögnuð viðstaddra. Eyþór segist vera mikill aðdáandi Gillan og fór m.a. með hlutverk Jesú í söngleiknum Jesus Christ Superstar í uppsetningu Menntaskólans á Akureyri og VMA í fyrra, en Gillan söng það hlutverk á fyrstu hljóðupptöku verksins 1971. Hann ætlar því ekki að missa af tónleikum Deep Purple í sumar. Með Eyþóri á sviði var unnusta hans, Unnur Björnsdóttir, sem lék á hljómborð en hún hefur vakið mikla athygli fyrir færni sína á fiðlu. Andri Ívarsson lék á gítar en hann er nemandi við Menntaskólann á Akureyri og var því eiginlega um samstarf framhaldsskóla að ræða. 30 framhaldsskólar áttu fulltrúa í keppninni í ár. Í öðru sæti urðu systkinin Arnar og Ingunn Friðriksbörn úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla og í þriðja sæti varð Nanna Bryndís Hilmarsdóttir úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja MYNDATEXTI Nemendur VMA fögnuðu ákaft þegar úrslitin lágu fyrir.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar