Biblían í nýrri þýðingu

Biblían í nýrri þýðingu

Kaupa Í körfu

GEIR H. Haarde forsætisráðherra opnaði sérstaka sýningu í Þjóðarbókhlöðunni í gær í tilefni af útkomu nýrrar íslenskrar biblíuþýðingar þar sem um er að ræða fyrstu heildarþýðingu biblíunnar frá árinu 1912. Eins árs undirbúningsvinna liggur að baki sýningunni í Þjóðarbókhlöðunni og er sýningarstjóri Emelía Sigmarsdóttir. Meðal fágætra muna á sýningunni er Guðbrandsbiblía frá árinu 1584 sem talin er ein mesta gersemi íslenskrar bókagerðar. Sýningin stendur til áramóta en þeir sem standa að henni eru Hið íslenska biblíufélag, Guðfræðideild Háskóla Íslands, Íslensk málnefnd, Þýðingarsetur Háskóla Íslands, Skálholtsskóli og Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn. Sýningin fjallar um biblíuþýðingar með nokkurri áherslu á þá þýðingu sem nú hefur litið dagsins ljós og dregur jafnframt fram eldri biblíuþýðingar á liðnum öldum. Við opnun sýningarinnar hélt biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, ávarp og þá var þýðingarnefnd þökkuð vel unnin störf með því að afhenda nefndarmönnum eintak biblíunnar. Jafnframt fengu fulltrúar í samstarfsnefnd trúfélaga á Íslandi eintak. Í gærmorgun fékk forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson fyrsta eintak þýðingarinnar við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni og skömmu síðar, í Alþingishúsinsu, fengu forseti Alþingis, forsætisráðherra og kirkjumálaráðherra sitt eintakið hver. MYNDATEXTI Fyrstur Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, afhenti forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrsta eintak biblíuþýðingarinnar í Dómkirkjunnni í Reykjavík í gær. Þýðingin er sú fyrsta frá árinu 1912.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar