Fitjatjarnir - plastendur

Helgi Bjarnason

Fitjatjarnir - plastendur

Kaupa Í körfu

ÖNDUM og svönum var sleppt á Fitjatjarnir í gær. Fuglarnir eru ekki fiðraðir en er ætlað að vera bæjarbúum og gestum til yndisauka auk þess sem vonast er til að þeir dragi að alvörufugla sem frekar lítið hefur verið af á tjörnunum að undanförnu. Þessi viðbót í fuglalíf Fitjanna í Njarðvík var hugmynd Viðars Más Matthíassonar, framkvæmdastjóra Umhverfis- og tæknisviðs Reykjanesbæjar, og Árna Sigfússonar bæjarstjóra. Þeir settu tvo gervisvani á tjörnina í skrúðgarðinum í Keflavík. "Þeim var svo vel tekið að einhver tók þær með sér heim," sagði Árni í gær þegar starfsmenn Reykjanesbæjar voru að koma fyrir á tjörnunum tólf plastöndum og fimm svönum úr sama efni. Heldur óhönduglega tókst til þegar fyrsta fuglinum var hent út á tjörnina. Aumingja svanurinn lenti á hvolfi og hófust nú miklar björgunaraðgerðir sem bæjarstjórinn tók fullan þátt í. Á meðan reiknaði Guðmundur Pétursson verkfræðingur út formúlu að sleppingum sem byggðist á því að setja ballest í fuglana og ýta þeim varlega á flot. Allt gekk áfallalaust þegar hún var notuð. MYNDATEXTI: Viðar Már Aðalsteinsson, bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar, hrindir í framkvæmd hugmynd þeirra bæjarstjórans og setur andapar á flot. Plastöndum og svönum er ætlað að draga að fugla.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar