Viðhafnarstofan í Höfða tilbúin

Viðhafnarstofan í Höfða tilbúin

Kaupa Í körfu

VIÐGERÐUM er nánast lokið í Höfða en um þrír mánuðir eru liðnir síðan miklar skemmdir urðu þar í bruna. Að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, forseta borgarstjórnar, munu flutningar á innanstokksmunum í húsið klárast á milli jóla og nýárs þannig að hægt verði að taka Höfða í notkun í byrjun nýs árs. Höfði verður því klár fyrir annan leiðtogafund Bandaríkjanna og Rússlands, ef sú staða kemur upp. „Þetta hefur allt gengið samkvæmt áætlun og í raun betur en það. Þarna hafa framúrskarandi iðnaðarmenn og verkamenn verið að störfum og vil ég hrósa þeim sérstaklega,“ segir Vilhjálmur. Viðgerðirnar utan á húsinu og inni í því hafa miðast við að færa það allt til fyrra horfs. Þó eru lítils háttar breytingar gerðar að innan, eins og með nýrri hurð á milli herbergja. Allt hefur verið málað upp á nýtt og er kominn á svipaður litur og þegar Ronald Reagan og Mikaíl Gorbatsjov áttu sögufrægan fund í Höfða árið 1986. Ekki liggja fyrir tölur um endanlegt tjón Reykjavíkurborgar en húsið er tryggt hjá VÍS. Mun tryggingin dekka tjónið að langmestu leyti. Viðhafnarstofan í Höfða er tilbúin en í gær skoðuðu Trausti Sigurðsson yfirsmiður, Anna Karen Kristjánsdóttir móttökustjóri og Jón Þ. Einarsson húsvörður fráganginn. Þau voru, líkt og Vilhjálmur, mjög ánægð með hvernig til hefur tekist.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar