Rúrí - Lindur – Vocal VII - Listahátíð í Reykjavík

Rúrí - Lindur – Vocal VII - Listahátíð í Reykjavík

Kaupa Í körfu

„Hátíðin hefur farið mjög vel af stað,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, um fyrstu daga hennar. „Ég er afskaplega ánægð með það hvernig til hefur tekist til þessa og sama má segja um aðra starfsmenn og stjórn Listahátíðar. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við dagskránni, kynningarefninu og Vinarkortinu, öllu því sem við höfum unnið að undanfarið. Við gætum ekki verið ánægðari.“ Hanna segir mjög mikla þátttöku hafa verið á viðburðum hátíðarinnar fyrstu dagana og víða yfirfullt. „Opnunarviðburðurinn við Ingólfstorg var mjög vel sóttur og síðan var allt annars konar dagur þegar fjöldi myndlistarsýninga var opnaður. Þá voru mikilvægar frumsýningar sem skipta miklu máli á dagskrá Listahátíðar, fullt hús var á gjörningi Rúríar í Hörpu og yfirfullt var á afar fínum stofutónleikum á sunnudag. Þetta hefur hreinlega gengið betur en hægt væri að óska sér.“ Og hún bætir við að Listahátíð skipti greinilega máli. „Það gleður okkur mjög mikið.“ Hanna segir dagskrá hátíðarinnar breyta nokkuð um takt þessa vikuna. „Þetta er Eurovision-vikan og við ætlum ekki að vera í óþarfa samkeppni við hana. Engu að síður eru veigamiklar sýningar í vikunni, eins og á Blæði Íslenska dansflokksins í kvöld og á Peter Grimes eftir Benjamin Britten á föstudaginn. Hvort tveggja eru stórviðburðir, uppselt er á frumsýningu Blæðis og Eldborg nálægt því að vera stútfull á Peter Grimes, en enn eru þó miðar fáanlegir. Verk Brittens eru sjaldan flutt á Íslandi og þetta er ein merkasta ópera 20. aldar, með völdum flytjendum í hverju hlutverki; fólk má ekki missa af þessu,“ segir hún. efi@mbl.is

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar