Rósa Kristín Baldursdóttir og Peter Arnesen

Rósa Kristín Baldursdóttir og Peter Arnesen

Kaupa Í körfu

Rósa Kristín Baldursdóttir sópran syngur söngva Peters Arnesen við ljóð Williams Blake, m.a. úr ljóðabókunum Söngvar sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar, við píanó- undirleik tónskáldsins í Hannesarholti í kvöld, fimmtudag, kl. 20. „Tónlistina samdi Peter á áttunda áratugnum þegar hann var poppstjarna í Bretlandi og spilaði með mögnuðum böndum og mörgum af helstu stjörnum bresks tónlistarlífs, s.s. Ian Hunter, Mick Ronson, Graham Nash og The Hollies,“ segir Rósa Kristín þegar hún er spurð um efnisskrá kvöldsins. „Peter bjó í litlu garðhúsi á herragarði uppi í sveit og varð fyrir miklum áhrifum af enskri menningu, þar á meðal ljóðum Blake,“ segir Rósa Kristín og rifjar upp að Arnesen, sem sé fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum, hafi flust til Bretlands tví- tugur að aldri. Aðspurð segir Rósa Kristín erfitt að skilgreina tónlistina, því að hún leiti fanga víða og eigi rætur í dægurtónlist, hryntónlist, blús, rokki og djassi. „Það kemur sér vel að ég er klassískt menntuð söngkona, því að umfang laganna er mikið og kallar á mikla raddbreidd. Ég reyni samt að nálgast tónlistina meira eins og ég sé að syngja ein með gítarinn. Sum lögin eru eins og poppballöður meðan önnur eru blúsaðri og eitt minnir helst á sálm,“ segir Rósa Kristín og tekur fram að búast megi við innilegri og notalegri stemningu í Hannesarholti þar sem frábær hljómburður styðji vel við Blake-ljóðaflokk Arnesen sem Rósa Kristín er að flytja í heild sinni á tónleikum í fyrsta sinn. „Þetta er magnaður kveðskapur hjá Blake og Peter þjónar ljóðunum í tónlist sinni. Þannig sprettur tónlistin upp úr ljóðunum.“

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar