Valur - KR bikarúrslitaleikur 2015

Eva Björk Ægisdóttir

Valur - KR bikarúrslitaleikur 2015

Kaupa Í körfu

„Þetta var frábært af okkar hálfu og leikmennirnir eiga þetta sannarlega skilið,“ sagði sigurreifur Ólafur Jóhannesson við Morgunblaðið eftir að hafa stýrt Valsmönnum til síns fyrsta bikarmeistaratitils í áratug þegar KR lá í valnum á Laugardalsvelli um helgina, 2:0. Ólafur lét sér fátt um finnast þó hann hafi ekki fengið medalíu um helgina, en þegar hann steig síðastur á verðlaunapallinn voru þær allar búnar. Það var gaman að fylgjast með honum á hlið- arlínunni í leiknum, hann fagnaði af innlifun og fékk meðal annars skömm í hattinn fyrir að æða inn á völlinn til að fagna fyrsta markinu. Eftir að fögnuður Valsmanna færðist inn í klefa var Ólafur svo einn eftir á hliðarlínunni, spígsporaði með hendur í vösum að njóta augnabliksins eins og sannur sigurvegari. „Ég er hrikalega sáttur með þetta. Við sögðum að við ætluðum að búa til gott fótboltalið á Hlíð- arenda og þetta gefur mönnum trú á að þetta sé hægt,“ sagði Ólafur, sem þekkir bikarúrslit sjálfur að eigin raun. Hann stýrði FH til þess fyrsta í sögu félagsins í karlaflokki árið 2007 og var sjálfur leikmaður FH þegar liðið tapaði einmitt fyrir Val í úrslitum árið 1991. Smiður eða sálfræðingur? Mikil umræða skapaðist fyrir leikinn um meiðslavandræði Vals, en þeir fjórir sem áttu að vera tæpir spiluðu leikinn. Þar kom herkænska Ólafs bersýnilega í ljós. „Við náðum aðeins að rugla umræðuna og ég held það hafi hjálpað okkur í smá sálfræði innan hópsins. Við vorum alltaf að fara að spila þennan leik allir saman, það var aldrei spurning,“ sagði Ólafur, en Patrick Pedersen var þó tæpur en harkaði af sér. Það vilja allir spila úrslitaleik. „Þetta er alveg jafn sætt,“ sagði hetjan sjálf, Bjarni Ólafur Eiríksson, sem skoraði fyrra mark Vals og lagði upp það seinna. Hann er eini leikmaður liðsins sem fagnaði titlinum árið 2005 og því var vel við hæfi að hann stæði upp úr. Hann sér miklar breytingar til batnaðar á liði Vals. „Mér finnst leikmannasamsetningin í ár betri en hún hefur oft verið áður. Þar af leiðandi erum við með sterka liðsheild sem skilar okkur þessum árangi. Mér fannst þetta verðskuldað og við hefðum vel getað unnið stærra,“ sagði Bjarni Ólafur.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar