Nöfn - Tryggingarstofnun - Mannanafnanefnd

Nöfn - Tryggingarstofnun - Mannanafnanefnd

Kaupa Í körfu

Mjög andstæðar skoðanir eru á frumvarpi Þorsteins Víglundssonar og fimm annarra þingmanna um breytingar á lögunum um mannanöfn í þeim umsögnum sem sendar hafa verið til Alþingis. Mannanafnanefnd leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt í nýrri umsögn og gerir margar og ítarlegar athugasemdir við efni þess. Segja nefndarmenn að fyrirliggjandi frumvarp sé ekki til bóta og beinlínis skaðlegt íslenskri tungu. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði í Háskóla Íslands, er á annarri skoðum. Hann segir fyrirliggjandi frumvarp verulega réttarbót og það afnemi þá mismunun sem felist í gildandi lögum og sé í raun mannréttindabrot. „Hún hefur fengið lítinn stuðning, aðeins skammir“ Í frumvarpinu eru eins og fram hefur komið hér í Morgunblaðinu, lagðar til verulegar breytingar, að einstaklingar fái rétt til að bera nafn eða nöfn sem þeir kjósa og mannanafnanefnd verði lögð niður. Mikill styrr hefur staðið um mannanafnalögin og úrskurði mannanafnanefndar í gegnum árin. „Mannanafnanefnd hefur árum saman orðið fyrir aðkasti fyrir það eitt að fara að lögum. Hún hefur fengið lítinn stuðning, aðeins skammir fjölmiðla og annarra þeirra sem lítið vita um hvað málið snýst,“ segir í nýrri umsögn sem Guðrún Kvaran, prófessor emeritus í íslensku og formaður Íslenskrar málnefndar, sendir allsherjar- og menntamálanefnd frá Singapúr. Guðrún átti lengi sæti í mannanafnanefnd og er málinu vel kunnug. „Ég var formaður fyrstu mannanafnanefndar þegar lögin voru mun strangari en þau urðu síðar,“ segir í umsögn hennar. „Nefndin reyndi af fremsta megni að fylgja lögunum þar til þáverandi dómsmálaráðherra boð- aði mig á sinn fund, þar sem einnig voru staddir ráðuneytistjórinn og skrifstofustjóri ráðuneytisins, og var erindið að tilkynna mér að Mannanafnanefnd yrði að gera undanþágu fyrir ákveðinn bankastjóra. Eftir nokkur orðaskipti neitaði ég þessari kröfu og gekk út en nefndin sagði af sér samdægurs. Fáeinum árum síðar var ég aftur beðin um að setjast í nefndina sem ég féllst á ef ég þyrfti ekki að vera formaður. Aftur kom upp svipað atvik en nú var það menntamálaráðherra sem vildi að nefndin gerði undanþágu fyrir skjólstæðing hans. Aftur hafnaði nefndin ósk ráðherra og sagði af sér. Eftir þetta hafa ráðherrar ekki reynt að hafa áhrif á störf nefndarinnar að ég best veit,“ segir Guðrún. Hún leggur til að frumvarpið verði lagt til hliðar og Alþingi feli nefnd sérfræðinga að fara yfir núgildandi lög og laga þau skynsamlega að breyttum tímum en þó m.t.t. til varðveislu íslenskrar tungu.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar