Norræna Húsið 50 ára

mbl/Arnþór Birkisson

Norræna Húsið 50 ára

Kaupa Í körfu

Í gær var hálf öld liðin frá því að Norræna húsið í Reykjavík var vígt við hátíðlega athöfn að viðstöddum 250 gestum, innlendum og erlendum. Af því tilefni býður húsið landsmönnum í dag upp á afmælisdagskrá sem það kallar „norræna menningarveislu“. Hefst dagskráin kl. 10 fyrir hádegi með morgunverði í tjaldi við húsið og lýkur með tónleikum sem hefjast kl. 19. Fjöldi hljómlistarmanna lætur þar til sín taka. Síðdegis verður vígð ný bryggja í Vatnsmýrinni sem er gjöf Reykjavíkurborgar. Meðal annarra dagskráratriða er finnskt saunabað úti í garði, barnabíó, andlitsmálning og sýning á finnskri hönnun. Norræna húsið hefur allar götur síðan það var vígt verið vettvangur fjölbreytilegrar menningarstarfsemi, fyrirlestra, ráðstefna, tónleika, leiklistar og myndlistarsýninga. Þá hefur þar frá upphafi verið starfrækt vinsælt bókasafn með norrænum bókum. Í húsinu er einnig veitingastaður sem mikið er sóttur. Húsið hannaði Finninn Alvar Aalto (d. 1976) sem jafnan er talinn einn fremsti arkitekt heims. Hann var valinn til verksins að ósk Íslendinga og fór Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, á fund hans með erindið. Í kjölfarið kom Aalto hingað til landsins og valdi staðsetningu í Vatnsmýrinni eftir talsverða yfirlegu. Eru línur hússins mótaðar undir áhrifum af landslaginu umhverfis það. Fundið hefur verið að því að öðrum byggingum hafi á síðustu árum verið þröngvað fullþétt upp að húsinu og það dregið úr þeim heildaráhrifum sem arkitektinn hafði í huga við valið.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar