Dagbók ljósmyndara

Þorkell Þorkelsson

Dagbók ljósmyndara

Kaupa Í körfu

TAMÍR, Síberíu, 26. febrúar 2001. Síbería nær yfir ótrúlega stórt landsvæði og geymir mörg leyndarmál í öruggri geymslu freðmýrarinnar. Eitt þeirra leyndarmála er mammúturinn, löngu útdauð dýrategund, náskyld afríska og indverska fílnum. Á síðustu árum hafa fundist ýmsar menjar um tilveru þeirra en sjaldgæft er eða nánast einsdæmi að fundist hafi heil dýr. Það gerðist þó 1999 þegar fransk/rússneskur leiðangur undir stjórn Bernar Buig gróf upp mammút sem varðveist hafði heill með húð og hári í fleiri þúsund ár. Raunar var það Jarkoff Gavril, maður af ættbálki Dolgan, innfæddra íbúa freðmýrarinnar, sem fann skepnuna þegar hann var á veiðiferð árið 1997. Dýrið hefur verið nefnd Jarkoff (borið fram "carkov") honum til heiðurs. Hann sá eitthvað torkennilegt sem við nánari athugun reyndist vera tennur mammútsins. En það var það eina sem sást af skepnunni. Tennurnar og höfuðkúpuna á myndinni sá ég á safni hér í Dudninka en beinin fundust ekki langt héðan (á rússneskan mælikvarða innan við 1000 km). Það er ómögulegt annað en hrífast af þessum feiknaskepnum fortíðar og það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort vísindamönnum tekst það ætlunarverk sitt að ná heilum DNA-sameindum úr dýrinu. Mér skilst að ef það tekst dreymi vísindamennina um að klóna dýrið með hjálp erfðavísa úr nútímafílum. - Fær mann nú bara til að hugsa um bíómyndinna Jurassic Park.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar