Dagbók ljósmyndara

Þorkell Þorkelsson

Dagbók ljósmyndara

Kaupa Í körfu

SÍBERÍA 24. febrúar 2001. Rússar eiga geysiöflugar þyrlur sem geta lyft allt að 70 tonnum eftir því sem mér er sagt (sel það ekki dýrara en ég keypti það). Enda búa þeir í landi þar sem samgöngur eru mjög erfiðar. Reyndar bar þetta flug nokkuð sérkennilega að. Við, ég og túlkurinn minn, virðuleg húsmóðir á sextugsaldri (spyr mig á hverjum morgni hvort ég sé með húfu, vettlinga og hvort ég sé búinn að borða), vorum búin að sitja á fundi þá um morguninn hjá útlendingaeftirlitinu til þess að fá ferðaleyfi fyrir mig og eftir talsvert japl og jaml fékk ég leyfið. Þegar við loksins komum að þyrlupallinum var þyrlan u.þ.b. að fara og okkur sagt að við kæmumst ekki með. En í því veifaði flugstjórinn hendinni út um gluggann og ég gekk til hans. Hann benti fyrst á mig síðan túlkinn sem stóð spottakorn frá og sagði síðan "you, you in!" Já, hvers vegna í ósköpunum skyldi maður eyða fleiri orðum í það. Þessi litla og veimiltítulega þyrla ber víst ekki meira en 3,5 tonn með fulla tanka af eldsneyti. Það þykir víst ekkert merkilegt hér en eyrum óreynds leikmans hljómar það sem alveg dágott. Lítið er lagt upp úr ytra útliti vélanna, en þeim mun meira upp úr viðhaldi sem skiptir máli. Allavega fannst mér alveg ljómandi gott að fljúga með þeim, þegar ég var búinn að koma mér fyrir. Hávaðinn er tiltölulega lítill a.m.k. miðað við amerískar herþyrlur. Mér fannst mjög notalegt að hafa glugga sem hægt var að opna á flugi þannig að kalt og hressandi heimskautaloftið (-34 gráður í dag) blandaðist hitasvækjunni inni í vélinni. Rússarnir virðast stundum halda að útlendingar séu kjúklingar sem þurfi að steikja, a.m.k. var mér fengið sæti beint fyrir ofan hitablásara sem hitaði sætið svo mikið að ég varð að fækka fötum og svo opnaði ég gluggann eins og fyrr sagði og þyrlan sveif af stað.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar