Xu Wen og Anna Rún

Jim Smart

Xu Wen og Anna Rún

Kaupa Í körfu

Á TÍBRÁRTÓNLEIKUM í Salnum, í dag, laugardag, kl. 16, syngur sópransöngkonan Xu Wen við undirleik Önnu Rúnar Atladóttur píanóleikara. Á efnisskránni eru ljóð og aríur, allt frá Mozart til Bernstein, þjóðlög frá Kína og Spáni auk laga eftir Pál Ísólfsson. Xu Wen, nam ung að árum kínverskan óperusöng, leiklist, dans og skylmingar við Huangmei-óperuskólann í Anhui fylki í Kína. Hún var fastráðin við Huangmei-óperuna 1986-1988 og hefur sungið aðalhlutverk í fjölmörgum kínverskum óperum. Xu Wen fluttist til Íslands árið 1989 og hóf nám í vestrænum söng hjá Elísabetu Erlingsdóttur við söngdeild Tónlistarskólans í Reykjavík og lauk þaðan einsöngvaraprófi með ágætiseinkunn vorið 1997. Hún stundaði framhaldsnám í London. Sem söngvari hefur hún tekið þátt í óperuuppfærslum og komið fram í sjónvarpi hér heima og í Kína. Anna Rún Atladóttir útskrifaðist vorið 1994 með fiðlukennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk píanókennaraprófi frá sama skóla. Hún stundaði framhaldsnám í London frá 1994, við Trinity College of Music og The London College of Music, þaðan sem hún lauk einleikaraprófi á píanó og MMus gráðu í píanóundirleik (Piano Accompaniment).

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar