Heimasíđa

Leiđangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiđinni

Útbúnađur

Fjalliđ

Gestabók

Styrktarađilar

 

Óblíður Everest
Aldrei hafa jafnmargir reynt að komast á tind Everest og í ár. Hluti hópsins er ekki vanur fjallgöngum og treystir á leiðsögumenn, og válynd veður hafa gert mönnum erfitt fyrir.

„EVEREST hefur verið okkur óblíður síðustu tvö ár," segir Todd Burleson, einn leiðangursstjóranna, sem bíða þess að komast upp á hæsta fjall heims. Rúmlega 300 manns eru í tjaldbúðum í hlíðum Everest, 170 manns sunnanmegin og 150 norðanmegin, og stór hluti þeirra hyggur á uppgöngu. Veður hafa verið válynd og það var ekki fyrr en í vikulok sem skriður komst á málið. Á fimmtudag hafði aðeins tveimur hópum tekist að komast upp, íslensku þremenningunum með breskum leiðangursstjóra og hópi Indónesa, sem komst upp við illan leik. Í gær komust 22 menn á tindinn en sjö fjallgöngumenn hafa farist í fjallinu í ár og í grein í nýjasta hefti Newsweek eru raktar skuggahliðarnar á ásókn manna í að komast á tindinn.
Sherparnir, sem fylgja fjallgöngumönnunum á tindinn, hafa haft á orði að gyðjan Chomolunga, sem tíbeskir búddistar trúa að búi í Everest, sé reið. Það sem hafi vakið reiði hennar hafi verið framkoma fjallgöngumanna nú og fyrir ári. Í fyrra töldu sherparnir það afar illan fyrirboða er tveir fjallgöngumenn höfðu samfarir í grunnbúðum, nokkrum dögum áður en átta manns fórust á tindinum. Í ár báðu nokkrir vestrænir fjallamenn sherpa um að matreiða svínakjöt, og varð hann við beiðninni þótt hann teldi það vita á illt, og væri í fimm daga að „hreinsa" líkamann af hinu óhreina kjöti. Skömmu síðar fórust sjö manns er þeir reyndu að komast upp á tindinn norðanmegin.

Aldrei fleiri í grunnbúðum
Hvorki andarnir né veðrið hafa verið fjallgöngumönnunum hliðholl, þótt nú virðist vera að rofa til. Hins vegar hafa aldrei jafn margir hópar hugað á uppgöngu og nú, þrátt fyrir harmleikinn fyrir ári, er átta manns, þar af nokkrir reyndustu fjallgöngumenn heims, fórust. Í suðurhlíðum Everest eru sjö hópar og norðan megin tólf. Uppgangan norðanmegin er talin hættulegri, en kostnaður við að fara þá leið er minni.
Vegna þess hve veðrið hefur verið slæmt í efstu hlíðum Everest, hefur för fjallgöngumannanna upp seinkað mjög, og séð var fram á örtröð við tindinn, ef veðrinu slotaði. Í gær komust 22 á tindinn en flestir voru þeir fjörutíu á einum degi árið 1993.
Lík nokkurra fjallgöngumanna, sem fórust í fyrra og í ár, eru við tindinn, og þurftu t.d. indónesísku fjallgöngumennirnir sem fyrstir komust á tindinn í ár, að klífa framhjá líki eins þeirra. Illmögulegt er að koma þeim niður af tindinum, vegna þess hve máttfarnir fjallgöngumennirnir eru í svo mikilli hæð.
Metfjöldi hyggur á uppgöngu og ekki eru allir þeirra þrautþjálfaðir fjallamenn. Bandaríkjamaðurinn Jon Krakauer, sem skrifaði bókina „Into Thin Air", um atburðina á síðasta ári, sagði að sér hefði hreinlega „orðið illt" þegar hann frétti af láti sjö fjallgöngumannanna nú. Flestir hefðu verið sammála um að ástæða harmleiksins í fyrra hefði verið vont veður, óvenjumikill fjöldi fjallgöngumanna og óvant fólk sem var í fylgd atvinnufjallamanna. Menn hefðu ekki látið sér þetta að kenningu verða, síður en svo. „Í kjölfarið helltust fyrirspurnir yfir leiðsögumenn: „Jeminn, ég vissi ekki að maður gæti fengið leiðsögn upp á Everest! Hvenær kemst ég?" spurði fólk," segir Krakauer. „En Everest fer ekki í manngreinarálit, hann drepur hina sterku rétt eins og hina veikbyggðari og vanmáttugri." Fyrir að komast upp á Everest greiða hinir auðugu og óvönu um 65.000 dali, um 4,6 milljónir ísl.kr.

Óvanir fari ekki á tindinn
Krakauer er þeirrar skoðunar að ekki eigi að aðstoða óvant fólk til að klífa hæsta fjall heims, því að það geti kostað allt of mörg mannslíf. Í fyrra hafi t.d. vanir fjallamenn farist vegna þess að þeir voru að reyna að bjarga lífi viðskiptavina sinna.
Enginn gerir sig líklegan til að stöðva ferðir fólks upp, þeir sem greiða nepölskum stjórnvöldum 10.000 dali, rúmar 700.000 kr., í leyfi, geta farið upp. Todd Burleson, einn leiðangursstjóranna, kvaðst fyrr í vikunni óttast að tilraunir manna til að komast á tindinn kynnu að snúast upp í björgunaraðgerðir, vegna þess hversu margir óvanir væru á ferð. Þá væri ástæða til að óttast örtröð efst uppi, þar sem menn gætu ef til vill ekki komið sér saman um í hvaða röð ætti að fara, eins og gerst hefði í fyrra, við svokallað Hillary-þrep, rétt fyrir neðan tindinn, þar sem myndast hefði teppa.
Ljóst er að menn eru mjög misjafnlega undirbúnir til að fara á tindinn, ekki er langt síðan einn hópurinn auglýsti á alnetinu eftir veðurfræðingi til að lesa af veðurkortum úr gervitunglum. Annar hefur stært sig af því að ætla að koma 68 ára gömlum manni á tindinn og sá þriðji, hópur Japana, gafst upp eftir að forstjóri fyrirtækisins sem styrkti þá, komst ekki upp Kumbu-ísfallið.

„Everest lagði líf mitt í rúst"
Bók Krakauers um Everest er afar umdeild, enda fer hann hörðum orðum um það hvernig staðið var að atlögunum á fjallið og gagnrýnir m.a. leiðsögumennina harðlega. Sjálfur var Krakauer í hlíðum Everest í fyrra. „Fjölskyldum sumra leiðsögumannanna sem fórust fannst ég sparka í þá, ekki aðeins liggjandi, heldur látna," segir Krakauer. Hann segist hins vegar furðu lostinn yfir því að hörð gagnrýni hans skuli ekki hafa hrætt fólk frá því að ganga á fjallið. „Ég ætla aldrei aftur þangað upp," segir Krakauer, en hann hefur einu sinni komist á tindinn. „Ég tel að það hafi lagt líf mitt í rúst að klífa Everest. Tilfinningalega, andlega ... ég er enn miður mín."


HÆTTURNAR á Everest-fjalli eru margar eins og sést á þessari mynd, sem tekin er rétt við tindinn, og sýnir fjallgöngumenn klifra eftir mjóum hrygg með snarbrattar hlíðar á báða bóga.
© 1997 Morgunblaðið

Allur réttur áskilinn