Heimasķša |
Pistlar leišangursmanna
Dagbókarbrot um sherpana okkar: Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með leiðangri sem okkar að sherpar leika stórt hlutverk og eiga stóran þátt í því hvort leiðangur heppnast eða ekki. En hverjir eru þessir sherpar, hvers konar fólk er þetta og hvað gera þeir í raun. Og af hverju eru það alltaf sherpar en ekki einhver annar þjóðflokkur sem treyst er á. Þessum spurningum hefur verið svarað rækilega í okkar huga í þessum leiðangri og sherparnir okkar eru búnir að koma sér rækilega fyrir í hugskoti okkar. Uppruni Sherpar eru einn af ótal mörgum þjóðflokkum í Nepal. Þeir eru af tíbeskum uppruna og er talið að þeir hafi flutt suður yfir fjallaskörðin af þurrum hásléttum Tibet niður í frjósama fjalladali Nepal fyrir um 300 árum. Þeir eiga sér eigin tungumál þó þeir telji aðeins nokkra tugi þúsunda. Þeir eru Búddatrúar og líkist trú þeirra mjög þeirri Búddatrú sem iðkuð er í Tibet. Sherpar eru trúað fólk, margir ganga í klaustur eða ljúka trúarnámi og kallast þá Lama. Trúin er stór hluti af lífi þeirra, þeir fara ekki í langferð án þess að fá blessun og í hættuferð sem þessa hefur hver hópur með sér Lama, sem sér um að halda guðunum góðum. Þeir eru margir hjátrúarfullir og trúa á drauga og önnur hindurvitni og svipar að því leyti til okkar Íslendinga. Ótrúlegur hæfileiki til að vinna í mikilli hæð. Sherparnir búa flestir í Solo Kumbu héraðinu, eða rétt neðan þess, í litlum þorpum sem eru í 2000m -4000m hæð. Neðstu þorpin eru í gróðursælum dölum en þau efstu eru í raun aðeins þyrping sela þar sem aðeins er búið á sumrin. Sherparnir hafa í gegnum aldirnar stundað landbúnað, ræktað harðgerðar korntegundir og kartöflur og fengið mjólkurafurðir af jakuxum, auk þess að vera milliliðir í verslun frá Tibet til Nepal og Indlands. Þeir hafa alltaf verið þekktir fyrir að vera harðgerð þjóð og þola hæð vel. Kemur það að öllum líkindum af því að þeir búa mjög hátt, í bröttum hlíðum og öll aðföng, frá vatni til munaðarvarnings, þarf að bera að, mislanga leið. Börnin eru farin að sækja vatn 5-6 ára gömul og venjast því fljótt þungum birgðum í þunnu lofti. Það er engu líkara en þessi eiginleiki sé orðinn arfgengur því styrkur og dugur þessa fólks í mikilli hæð er einstakur. Þessi eiginleiki varð til þess að evrópskir fjallgöngumenn réðu sér sherpa sem burðar- og síðar aðstoðarmenn strax fyrir aldamótin. Harðgerðir atvinnufjallgöngumenn Um 1920 voru einstakir eiginleikar sherpanna orðnir heimsþekktir og síðan þá eru það fáir leiðangrar í Himalayafjöllum, hvort sem er fjarri heimahögum sherpanna eða nálægt þeim, sem ekki hafa nýtt sér krafta þeirra. Það eru því áratugir síðan hópar sherpa fóru að stunda fjallaferðir að atvinnu og fljótlega spruttu úr þeim hópi, metnaðarfullir og hæfir fjallamenn sem settu mark sitt á leiðangra og höfðu getu og metnað til að ná tindinum sjálfum. Tenzing Norgay sherpa kom þeim endanlega á kortið sem alvöru fjallamönnum þegar hann, ásamt Edmund Hillary kleif fyrstur Mount Everest árið 1953. Það er í raun ótrúlegt og stórkostlegt, þegar sagan er skoðuð, að sherpi skildi ná þessu takmarki fyrstur og má fullyrða að það hefur verið öðrum sherpum hvatning og fyrirmynd æ síðan. Með síauknum fjölda leiðangra á hæstu fjöll heims á undanförnum árum og áratugum hefur hópur svokallaðra háfjallasherpa farið stækkandi. Þeir fara gjarnan í 2-3 leiðangra á ári og nota afraksturinn til að byggja upp starfsemi heima í þorpinu sínu, lítið gistiheimili eða fyrirtæki sem skipuleggur gönguferðir vestrænna ferðalanga. Þessir menn eru vel stæðir á nepalskan mælikvarða og þeirra framlag ásamt síauknum fjölda ferðamanna til héraðsins, í kjölfar bættrar aðstöðu, gera það að verkum að Solo Khumbu er ríkasta fjallahérað Nepals. Sherparnir okkar Í okkar hópi eru 17 sherpar, 12 þeirra eru háfjallasherpar en 5 eru kokkar og almennir starfsmenn. Hlutverk háfjallasherpanna er að bera birgðar eins hátt upp í fjallið og þörf er á og fylgja leiðangursmönnum áleiðis á tindinn þegar að því kemur. Auk þess ganga þeir í allt annað sem gera þarf eins og aðrir leiðangursmenn. Okkar reynsla af þessum einstaka þjóðflokki miðast við okkar hóp og getur því ekki talist almenn. Æðsti maðurinn í hóp sherpanna nefnist Shirdar og í okkar tilfelli er það Ang Babu sherpa sem gegnir því hlutverki. Við gætum ekki verið heppnari með mann því í honum sameinast stjórnunar- og skipulagshæfileikar og óhemju reynsla, bæði af Everest og öðrum 8000 m fjöllum. Í hans höndum er öll skipulagning á sherpahópnum og öll birgðastýring, bæði í grunnbúðum, sem og uppi í fjalli. Jon Tinker leiðangurstjóri fær því bara upplýsingar frá honum um hvernig staðan er, en þarf ekki að skipa fyrir um flutninga. Babu er sá maður í öllum leiðöngrum hér sem oftast hefur farið á Everest, alls 6 sinnum, í öll skiptin án súrefnis og einu sinni fór hann tvisvar á toppinn í sömu vikunni sem er einstakt afrek. Hann er samt alls ekki eins og maður ímyndar sér slíkt ofurmenni, lítill og frekar feitlaginn, hann er glaðvær maður og húmorískur, úrræðagóður og þægilegur í umgengni. Hér þekkja hann allir og bera ómælda virðingu fyrir honum, við njótum þess að vera með Babu. Hans hægri hönd er Lagpageilo sherpa, hávaxinn og grannur, algjör andstæða Babu, harður nagli sem hefur sigrað Everest tvisvar og auk þess fleiri 8000m fjöll. Hinir 10 eru flestir reyndir jaxlar eða ungir menn á uppleið, óhemju duglegir og metnaðarfullir. Það er mikil keppni á milli þeirra, þeir sem bera þyngst og eru fljótastir eru einfaldlega bestir. Þeir fá ekki bara betur borgað, heldur fá þeir bestu tækifæri á að fara með leiðangursmönnum á toppinn. Það þýðir svo aukna virðingu, hærra kaup og atvinnuöryggi í framtíðinni. Sherparnir okkar leggja á sig ótrúlegt erfiði og vinnu til að leiðangurinn takist. Jon leiðangursstjóri leggur líka mikla vinnu og áherslu á að þeir hafi það sem best. Þeir kunna líka að meta það að það er mikil ábyrgð á þeirra höndum og endurgjalda það með tryggð og vinnu. Því má heldur ekki gleyma að trúfesta og vinátta er hornsteinn í trúarbrögðum þeirra. Það er stundum misnotað. Það er alþekkt, sérstaklega í austurlenskum leiðöngrum að leiðangursstjórar etja sherpunum út í hættulegar aðstæður með hörku og hér á þessum slóðum getur það, og hefur oft, kostað mannslíf. Hér í okkar hópi hefur Babu síðasta orðið fyrir hönd sherpanna. Ef Babu segir svo, þá eru þeir kyrrir. (Og ekki förum við að ana út í eitthvað sem sexfaldur Everestfari segir ótryggt.) Ekki af þessari jörðu Sherparnir eru glaðvær hópur. Þeir hafa gaman af fjárhættuspili, discói, nepalskri tónlist og af því að gera grín að okkur aumum vesturlandabúum. Hlátrasköllin gella oft að baki okkar eftir að við höfum átt við þá erindi og við vitum að við fáum aldrei að smakka það úr matarbirgðunum sem þeim þykir best. En við berum líka fulla virðingu fyrir reynslu þeirra bestu, og styrk þeirra allra og getu. Þeir eru að bera allt að 24 kg ofarlega í fjallinu og fara samt hraðar yfir en allir nema sterkustu vesturlandabúar. Og hann Jón Þór gleymir líklega aldrei sherpastúlkunni sem hann fékk til að bera bakpokann sinn fyrir sig upp frá Dingboche um daginn. Alltaf var hún á undan og raulaði lög fyrir munni sér á leið upp brattar brekkurnar í 5.000m hæð á meðan hann gekk másandi og blásandi á eftir. Það er eins og þetta fólk komi ekki af þessari jörðu. Og okkur koma oft í hug ráðleggingar gamals fjallgöngumanns sem sagði: Láttu þig aldrei, aldrei, dreyma um að þú komir frá sherpaplánetunni. |
Nú eru meira en þrjár vikur síðan við komum hingað og hófum að kljást við Mount Everest. Á þeim tíma hafa Björn, Einar og Hallgrímur farið allmargar ferðir upp í fjallið, dvalist í nokkra daga í hvert sinn og hækkað sig í hverri ferð, allt til að bæta aðlöguna og undirbúa líkamann undir það að reyna við toppinn. Í hvert skipti sem þeir fara upp, þurfa þeir að byrja á því að komast upp í gegnum hið hrikalega Khumbu ísfall sem gnæfir hér ofan við grunnbúðirnar. Þótt fyrsta ferðin sitji fastast í minningunni þá er alltaf jafn stórbrotið að komast í gegnum þennan mölbrotna og allt að því ófæra falljökul.
Ísfallið
Khumbu ísfallið fellur úr Vesturdal, sem afmarkast af Lhotse fyrir botni dalsins, Everest sem myndar norðurhlíðar hans og Nuptse sem er sunnan hans. Í raun þýðir Lhotse austurtindur og Nuptse suðurtindur, og sýna nöfnin hversu nátengd þessi fjöll eru Everest. Þau þiggja nöfn sín af Gyðjunni, móður heimsins, þrátt fyrir að vera aðskilin fjöll. Þetta er til marks um þann ægishjálm sem Mount Everest ber hér yfir landslag, mannlíf og hugsanir fólks, ósjálfrátt leita augun þangað upp og hér eiga menn í erfiðleikum að hugsa um nokkuð annað. Khumbu jökullinn á sér í raun þrjú líf. Hann á upptök sín í snarbröttum hlíðum Lhotse í um 7800m hæð. Hann fellur niður hlíðarnar ofan í Vesturdal þar sem hann fikrar sig svo ofan dalinn niður í 6100m hæð. Þar tekur ísfallið við, jökullinn steypist ofan hengiflugið og endar brotinn og maskaður niðri á sléttunni í dalnum, amk 800m neðar. Þar rennur ísinn aftur saman og myndar Khumbu skriðjökulinn sem hlykkjast svo niður dalinn um 15 km áður en hann bráðnar rétt ofan við byggðina í um 4500m hæð.
Um þennan brotna heim falljökulsins, síbreytilegan og varasaman, liggur leið fjallgöngumanna á Everest hér sunnan megin frá. Þetta er ekki leið sem neinn mundi velja nema af því að hún er sú eina sem fær er. Að vísu hafa menn klifið Vesturöxl og Vesturhrygg Everest en það er ógnarlöng leið og erfið ef reynt er að komast framhjá ísfallinu alla leið úr grunnbúðum og að öllum líkindum enn hættulegri en að fara ísfallið. Við félagarnir erum sammála því að við höfum séð álíka falljökla heima, td suma skriðjöklana sem falla úr Öræfajökli, en upp þá hefur engum dottið í hug að fara, enda um margar góðar leiðir þar að velja upp.
Leiðin upp.
Það er aðeins um 10 mínútna gangur frá tjöldunum okkar og að ísfallinu. Þar sem ísexin er losuð af bakpokanum og broddar eru spenntir á skóna er ekki mjög bratt, jökullinn er lítið sprunginn en nokkuð háir þrýstihryggir eru þvert á hann. Fljótlega eykst brattinn og leiðin hlykkjast upp og niður djúpar dældir í jöklinum. Sprungurnar fara að stækka og talsverða króka þarf að taka á sig til að komast fyrir þær. Svo kemur að því að það er ekki lengur hægt, sprungurnar eru of djúpar og netið sem þær mynda er of flókið til þess að hægt sé að komast áfram öðru vísi en yfir hyldýpið. Hér kemur til kasta stiga sem lagðir eru yfir sprungurnar, þeir eru oft bundnir saman ef þeir eru ekki nægjanlega langir. Þeir eru stífaðir með köðlum þar sem breiddin er mest, til að þeir sveiflist minna til. Flestir skríða yfir þessa stiga. Þeir eru aðeins 30 cm breiðir og ekkert gamanmál að komast upp á yfirborðið aftur ef maður dettur þótt öryggislínurnar taki fljótt í. Þessar fyrstu sprungur eru allt að 20m djúpar og 6-8m breiðar og það kemur fiðringur í magann á flestum þegar horft er í hyldýpið. Við höfum hins vegar farið að dæmi Sherpanna og göngum yfir brýrnar. Það er fljótlegra og bakpokinn situr á bakinu en rennur ekki upp á höfuðið eins og oft gerist þegar skriðið er niður í móti. En það er betra að vera fótviss og lítt lofthræddur þegar reynt er að skorða mannbroddana á mjóum stigarimunum því þá er ekki hægt að komast hjá því að horfa niður. Þetta stigabrölt var okkur alveg óþekkt þegar við komum hingað og það tók dálítinn tíma að venjast ónotatilfinningunni og hún virðist ekki hverfa. Þessir stigar eru bara þeir fyrstu af nokkrum tugum stiga á leiðinni upp, svo það er eins gott að venjast þeim.
Poppkorn og fótbolti
Eftir fyrstu stigana eykst brattinn verulega en sprungurnar minnka. Fljótlega er komið inn á svæði sem hér er kallað í daglegu máli, poppkornssvæðið. Ísinn er hér mulinn í tætlur og er eins og yfir verulega bratta stórgrýtisurð sé að fara. Ísmolarnir" eru frá 30 cm upp í nokkra metra í þvermál. Á milli molanna má svo víða horfa niður í ógnardjúpar sprungur, það er eins og mulningurinn hangi efst í þeim fyrir eitthvert kraftaverk. Hér eru menn því léttstígir og fljótir í förum. Leiðin hlykkjast eftir þessu ógeði til vinstri alveg undir vesturöxl Everest en tekur svo snögga hægribeygju inn í brotalandslag sem er öllu stærra í sniðum og lítur öruggara út. Þegar við fórum upp fyrst var gengið út úr þessu, inn á marflatt svæði í miðju ísfallinu sem var kallað fótboltavöllurinn og bar nafn með rentu. Slétt stórt svæði, eins og auga fellibyls. Þarna var hægt að eiga stund milli stríða og undirbúa næsta áfanga. Það gerðist hins vegar eina nóttina að þetta örugga svæði hljóp allt fram og sprakk og hlutar þess hrundu niður í fallið fyrir neðan. Þar sem áður var sléttur völlur er nú þörf á að klífa 10m ísstál upp á þann hluta sem ekki brast í spón. Það er því nú sama óþægindatilfinningin þarna eins og annars staðar í ísfallinu. Leiðin fikrar sig svo áfram til hægri, alveg undir Nuptsehlíðar og liggur þar upp allmiklar ísbrekkur áður en hún sveigir aftur inn í miðju jökulsins, enda er ekki þægilegt að horfa upp undir óstöðuga íshamrana sem hanga utan í Nuptse og eiga það til að hrynja niður í ísfallið með drunum sem lengi bergmála í fjallarisunum.
Heilu íbúðarblokkirnar af ís
Nú er komið yfir miðju klifurssins og toppur ísfallsins farinn að nálgast. Hér hefur ísinn ekki náð að molna eins og neðar og gerist klifrið og umhverfið æ stórkarlalegra. Hér þarf að fikra sig undir, og á milli íshamra sem eru eins og 4-5 hæða hús og virðast neðan frá séð halla ískyggilega yfir mann. Og það sem verra er. Þegar betur er að gáð, þegar klifrað er upp fyrir þessi tröll, kemur í ljós að tilfinningin er alveg rétt. Þúsundir tonna af ís hanga einhvern veginn á hlið, eins og á voninni, og það er bara tímaspursmál hvenær tonnin fara af stað og mylja allt undir sér. Á þessum slóðum er ekki stoppað nema rétt til að ná andanum, því súrefni er farið að minnka verulega í um 6000m hæð og klifrið sem tekið hefur 3-6 tíma úr grunnbúðum er farið að taka verulega á flesta. Lokahindrunin er ofan þessara hrollvekjandi íströlla, 50m breið og 30m djúp íssprunga, efsta sprungan í ísfallinu og í raun upphaf þess. Botninn er fullur af ískurli og á milli þess má sjá amk aðra 50 m niður. Upp efri brún sprungunnar er all glæfralegur stigi, settur saman úr 5 stigaeiningum, allur laus frá ísstálinu stífaður af með köðlum frá hinni brúninni. Okkur þykir öruggara að fara aðra leið með færri stigum og meira klifri sem okkur þykir öruggara. Það kostar mikinn blástur og mikið puð áður en höfuðið kemur loks upp fyrir brúnina og sjálfur Vesturdalur blasir loks við. Hann er allur jökli hulinn og það þarf að feta mikla krákustíga kílómetrann að öðrum búðunum okkar sem þó virðast alltaf svo nærri enda eru þversprungurnar á þeirri leið all svakalegar. En það er bara háfjallapuð eins og við þekkjum, fyrstu skrefin af mörgum áfram upp og erfiðleikarnir varla hafnir, en ísfallið er þó að baki einu sinni enn, hjartað farið að róast og við vitum að nú er einni ferðinni færra þar upp.
Læknir ísfallsins
Það hlýtur að vera öllum ljóst að á stað sem þessum er skynsamlegt að nota sameiginlega leið til að örugglega sé um bestu leið að ræða fyrir alla. Það er því aðeins ein leið upp ísfallið. Leiðangrar sem hér eru hafa líka brugðið á það ráð að fá einn hóp manna til að taka að sér að halda þessari leið opinni. Yfirmaður þess hóps, Sherpi sem menn kalla ísfallslækninn fer fyrstur manna á morgnana upp og kannar leiðina og hefur vald til að loka henni ef skemmdir hafa orðið of miklar. Þá er ekki um annað að ræða en að bíða eftir því, að hann og menn hans ljúki lagfæringum og opni leiðina. Þetta er hættulegasta vinnan á öllu fjallinu og eru það fáir sem öfunda þessar hetjur af sínu hlutskipti. Þessi hópur sér líka um alla stiga og reipin sem lögð eru um varasömustu staðina, sem er reyndar öll leiðin.
Sherpar: 110km/klst
Eftir því sem ferðum um fallið fjölgar, þeim mun meiri er áhættan. Við reynum því að fara sem sjaldnast þar um. Þriðju búðir eru vel birgar og þar má dvelja dögum saman ef heilsan leyfir. Einnig er hrun mest eftir að frysta tekur aftur á kvöldin og er því ferðatíminn snemma morguns. Það er líka vegna þess að það verður óbærilega heitt á milli fjallanna þegar sólin kemur upp og ferðahraðinn fellur niður í hraða snigilsins. Sherparnir sem bera mest af búnaði sem til þarf upp fjallið fara miklu fleiri ferðir þarna um og eru því í raun í mun meiri hættu en við. Í okkar leiðangri er þeim í sjálfsvald sett hvort og hvenær þeir leggja af stað og þeir meta aðstæður á hverjum morgni. Sherparnir gera sér góða grein fyrir hættunni og eru flestir fljótir í gegnum ísfallið, miklu fljótari en við getum nokkru sinni orðið, Þeir eru svo fljótir að gamansamir Mexikanar, góðvinir okkar úr öðrum leiðangri hér, settu upp um daginn umferðarskilti á miðjum jöklinum. Á því stendur: Hámarkshraði: 60km/klst. Sherpar: 110km/klst.
Það er í raun kraftaverki líkast að vera hér efst í Himalayafjöllum, í tugi kílómetra fjarlægð frá næsta síma og í yfir 100km fjarlægð frá vegi en geta samt verið í beinum samskiptum heim, bæði komið frá okkur fréttum og fá fréttir að heiman á augnabliki. Það hafa margir lýst áhuga sínum á að fá að vita hvernig þetta er hægt og hvernig tækjabúnaði við höfum yfir að ráða.
Það var orðið ljóst nokkru áður en við héldum að heiman að áhuginn á þessu framtaki var verulegur og því æskilegt að unnt væri að koma fréttum heim örar en á nokkurra vikna fresti eins og raunin er oftast í löngum leiðöngrum á fjarlægar slóðir. Póstur og sími hf er sá aðili sem sér um að viðhalda sambandi manna á milli heima á Íslandi og því nærtækast að leita stuðnings þar á bæ. P og S féllst á að útvega til láns gervihnattasíma til fararinnar. Hann er af gerðinni Thrane & Thrane, Immersat M-mini og er af allra nýjustu gerð og er minni en flestar kjöltutölvur. Aðeins fyrir nokkrum árum voru símar af þessari gerð á stærð við ferðatösku og þannig eru þeir símar sem við höfum séð hjá öðrum leiðöngrum hér. Enda hefur okkar sími vakið hér verulega athygli. Notkun símans er ótrúlega auðveld. Loftneti hans er lyft líkt og skjá á kjöltutölvu, símanum er snúið í átt að þekktum Immersat gervihnetti en þeir eru staðsettir á nokkrum stöðum í 36.000 km hæð yfir miðbaug jarðar. Hægt er að nota hljóðmerki og láta símann leita að hnettinum ef staðsetning hans er ekki þekkt. Þegar hæfilegum móttökustyrk er náð er hægt að taka upp tólið og hringja heim. Það tekur varla meira en 30 sekúndur að setja upp símann og ná sambandi. Eins og nærri má geta eru símtöl þessi hins vegar mjög dýr og er því símtölum haldið í lágmarki. Við lögðum áherslu á að síminn væri búinn mótaldi og þeim möguleika að hægt væri að eiga tölvusamskipti um hann. Enda er það á þann hátt sem hann er mest notaður.
Við erum með í för öfluga Pentium kjöltutölvu af AST gerð með Windows 95 stýrikerfi. Dial Up Networking er notað til að ná sambandi við netþjón á Íslandi sem var settur upp sérstaklega fyrir okkur af Tölvumiðlun hf vegna erfiðleika að halda sambandi við hefðbundna netþjóna í gegnum gervihnattasambandið okkar. Einföld útgáfa af Eudora forritinu er svo notuð til að sækja og senda tölvupóst. Þetta er ódýr og góður möguleiki sem gerir okkur og þeim sem vilja heima, kleift að eiga ítarleg samskipti á auðveldan hátt, þegar hverjum og einum hentar. Á þennan hátt sendum við Morgunblaðinu fréttir af okkur og svona sendum við efni á netsíðuna okkar.
Við getum líka sent myndir heim í gegnum tölvupóst. Við erum með tvær gerðir af myndbandsupptökuvélum. Jón Þór, myndatökumaður sjónvarps, er með stafræna vél af gerðinni Sony DRC-VX9000. Einnig er með í för til notkunar á fjallinu mjög handhæg og lítil stafræn vél af gerðinni JVC GR1. Báðar vélarnar er hægt að tengja við Snappy tölvubúnað sem gerir kleift að lesa af þeim kyrrar myndir með viðunandi gæðum. Þessar myndir er svo hægt að senda með tölvupósti heim en það tekur langan tíma. Venjulega eru myndir sem við sendum af stærðinni 40K og tekur 10 til 20 mínútur að senda hverja mynd eftir gæðum sambandsins sem við náum við gervihnöttinn. Það er því ljóst að myndirnar geta ekki orðið margar.
Póstur og sími hf útvegaði okkur líka 3. talstöðvar til að eiga samskipti okkar á milli. Tvær eru af gerðinni Motorola Visar, litlar og handhægar og ein af gerðinni Motorola Radius til notkunar í Grunnbúðum. Fyrirtækið Rafeindatækni bjó svo til fyrir okkur loftnet til að nota við Radius stöðina og eykur það mjög drægni milli stöðva. Þessi búnaður hefur reynst það vel að hann er nú notaður af öllum leiðangrinum til að eiga samskipti ofarlega úr fjallinu og niður en búnaður leiðangursins sjálfs hefur ekki reynst sem skyldi. Rafeindatækni hannaði einnig búnað til að tengja talstöðvarnar við símann svo unnt sé að tala úr fjallinu og beint heim, með aðstoð úr grunnbúðum. Þessi búnaður hefur einnig reynst vel.
Það má ljóst vera að mikla orku þarf til að knýja allan þennan rafeindabúnað. Má í því sambandi skipta honum í tvennt; annars vegar þeim hluta búnaðarins sem notaður er á fjallinu og hins vegar þeim hluta hans sem er í grunnbúðum. Upp í fjall er bara farið með talstöðvar og litlu myndbandsvélina (auk hefðbundinna myndavéla). Bæði eru knúin af endurhlaðanlegum rafhlöðum. Það er hins vegar reynslan frá síðasta leiðangri á Cho Oyu að í þeim kulda sem ríkir yfir 8000m duga slíkar rafhlöður skammt. Því eru með í för leiðangursrafhlöður af lithiumgerð sem bornar eru innan klæða og knýja bæði talstöð og myndbandsvél í gegnum snúru. Sú reynsla sem við höfum þegar fengið af notkun þessara rafhlaða segir okkur að orka á ekki að verða vandamál efst í fjallinu. Öllu erfiðara hefur okkur reynst að afla nægjanlegrar orku fyrir búnaðinn í Grunnbúðum. Bæði síma og tölvu má knýja með venjulegri 220V spennu, eins og úr innstungu heima, sem og með sólarorku. 220V spenna er einfaldari þrátt fyrir að þá þurfi spennubreyti, því þá er um beina notkun að ræða en sólarorkan dugir aðeins til að hlaða rafhlöður tækjanna en ekki til að halda þeim við þegar þau eru í notkun. Við urðum fyrir því óláni strax í upphafi að rafstöð leiðangursins bilaði og gaf frá sér 370V í stað 220V. Við þetta brunnu straumbreytarnir okkar yfir og urðu ónothæfir. Var okkur þá nauðugur einn kostur að grípa til sólarorkunnar. Við höfum með í för 3 sólarfleti og rafgeymi til að hlaða orku inn á. Þessi orka hefur dugað okkur til að knýja tölvuna að vild en símann aðeins í nokkrar mínútur á dag. Þetta hefur t.d. valdið því að lítið hefur verið um myndsendingar. Nú fyrir skemmstu brann svo yfir millistykki sem gerði tölvunni kleift að nýta sér sólarorkuna og höfum við verið tölvulausir undanfarna daga. Nú voru okkur hins vegar að berast í hendur alla leið frá Íslandi varahlutir svo nú er tölvan komin í gagnið aftur og þessi pistill mögulegur. Við höfum einnig gert ráðstafanir til að fá varahluti við símann sem væntanlegir eru næstu daga. Við erum einnig komnir með nýja rafstöð. En brennt barn forðart eldinn og við erum orðir tortryggnir og treystum ekki neinu. Það er á leiðinni tæki til að tryggja að straumurinn frá frá rafstöðinni haldist jafn og svo er voltmælirinn okkar aldrei fjarri þegar eitthvað er tengt. Það má ljóst vera að það þarf margbrotinn tækjabúnað og margháttað stúss til að færa Íslendingum fréttir af okkur heim en við lítum á það sem hluta af ævintýrinu.
Það er ekki fráleitt að líkja grunnbúðum hér við rætur Khumbu ísfallsins við lítð þorp. Og þar sem margir flytja hingað á hverjum degi verður hér áður en langt um líður meðalstórt þorp. Við slógum tölu á tjöldin fyrir nokkrum dögum og gáfumst upp nálægt 150, hvorki meira né minna. Og það hefur bæst við töluvert síðan. Tjöldin eru af öllum regnbogans litum og öllum stærðum. Margir leiðangrar hafa hlaðið hér heilu húsgaflana úr grjótinu sem hér er um allt og tjaldað yfir en aðrir (þar á meðal við) nota stór tjöld fyrir máltíðir og eldamennsku.
Um allt eru svo pujaflöggin, bænaflögg sherpanna og gefa staðnum annarlegan svip. Á kvöldin er hér um að litast eins og í álfaborg, þegar birtan innan úr tjöldunum lýsir þau upp. Umgjörðin er svo fjallarisarnir svarbláir í tunglskininu og stjörnuhiminninn svo ógnarbjartur. En þótt hér sé oft töfrandi fallegt tala menn og konur meira um hversu kalt er á nóttunni, snjókomuna seinnipartinn og steikjandi sólskinið á morgnana. Það er kvartað yfir þrálátum hósta, kvefi sem ekki hverfur, óþolandi höfuðverk og stuttum andardrætti. Jafnvel sólbruna á tungunni sem stafar af því að flestir verða að anda með galopinn munninn og brenna á þessum óvenjulaga stað, þar sem illt er að koma við sólaráburði. Hér geta menn ekki flýtt sér á klósettið þótt þörfin sé brýn, ekki staðið hratt á fætur eða haldið niður í sér andanum á meðan skóreim er hnýtt án þess að standa á öndinni af mæði. Og þrátt fyrir þetta eru hér um 400 manns, fjallgöngumenn, sherpar og aðrir aðstoðarmenn og eyða hér 2. mánuðum af ævi sinni.
Hvað rekur þetta fólk hingað? Hvað er það eiginlega að hugsa? Sumir þessara 400 ætla sér meira að segja hærra upp, upp fyrir mörk hins byggilega heims og heimsækja tröllin hér fyrir ofan okkur, Lhotse og sjálfa drottninguna Everest. Þessum spurningum hefur oft verið velt upp og við henni eru til ótal svör. Það frægasta á án efa Mallory sem féll í valinn hér fyrir ofan okkur árið 1924. Hann svaraði þessari spurningu með orðunum: Because it is there" eða Af því að það er þarna. Hann hefur örugglega hreytt þessu út úr sér til að losna við óþæga blaðamenn, spyrjandi sömu spurninganna aftur og aftur. En þetta er gott svar engu að síður og nær inn í einhvern sannleikskjarna. Það er eitthvað ögrandi og freistandi við erfið verkefni, eitthvað sem kallar á suma að ráðast að þeim og leysa þau. Aðrir hafa stundað fjallamennsku um árabil, líta á hana sem lífsstíl og hæsta fjall heims er bara einn áfangi í lífinu, hjalli sem komast verður yfir til að öðlast sálarró, ögrun sem vakað hefur í undirmeðvitundinni frá því í barnæsku, barnslegur draumur sem varð allt í einu framkvæmanlegur og því óhjákvæmilegur. Aðrir segja að þeir hafi aldrei skilið þessari brennandi þrá eftir því að fara hærra og sjá lengra og skilja sjálfan sig aðeins betur og því fari þeir aftur og aftur á fjöll. En hvað með hættuna spyr fólk. Vissulega er hættan fyrir hendi en hana má lágmarka með færni, reynslu, góðum búnaði og öruggum ferðafélögum. Þá kemur bara að því hvar mörkin eru dregin, hverju er óhætt að hætta og fyrir hvað. Það er allt í þessum heimi hættulegt, bæði að skilja sjónvarpið eftir í sambandi og að fara út í búð eftir mjólk. Margt af sví sem við lítum á sem hluta af daglegu lífi okkar er í raun hættulegt. Ef fjallamennska og þau markmið sem við fjallamenn setjum okkur eru hluti af okkar lífi og lífsstíl þá er viss áhætta ásættanleg. Eða eins og Chris Brown, einn af ferðafélögum okkar hér, verðlaunaður af Bretadrottningu fyrir mannúðarstörf sem afrek hans í fjallamennsku hafa gert honum kleif, segir: Lífið er ekki æfing, þetta er okkar líf og við verðum að lifa því eins og við erum sjálfir sáttir við það.
En hér í grunnbúðum er fólk af ýmsum meiði, dregið áfram af metnaði sem á stundum ekkert skilið við fjallamennsku. Hér snúast spurningarnar við og svör þessa fólks eru okkur hulin ráðgáta. Það er sérkennilegt aðdráttarafl sem hæsta fjall í heimi hefur á fólk. Við lítum á Everest, hæsta tindinn sem við getum klifið um ævina en samt sem áður aðeins toppinn á ísjakanum. Hér er hins vegar fjöldi manna og kvenna sem ekkert kann til fjallamennsku og hefur takmarkaðan áhuga á henni. Markmiðið er aðeins að komast á það hæsta. Fæstu af þessu fólki tekst ætlunarverk sitt en það kemur samt aftur að ári án þess að hafa stungið ísexi í snjó í millitíðinni en treystir á það að atvinnumenn komi því upp og niður á tveimur mánuðum. Hér stöndum við gapandi af undrun og skiljum ekki hvernig hægt er að ana svona áfram í blindni. Þessi einkennilega blanda af fáfræði og toppametnaði er jafnvel stundum einkennandi fyrir heilu leiðangrana, þegar þjóðarstolt og metnaður ber skynsemina ofurliði. Hér er t.d. leiðangur frá Malaysíu sem hefur það að markmiði að koma fyrsta Malaysíumanninum á toppinn. Leiðangurinn skipa 30 manns auk sherpa og annarra erlendra aðstoðarmanna. Af þessum ógnarhópi eru aðeins þrír klifrarar og eftir því sem ólánsmennirnir sherparnir þeirra segja, kunnu þeir ekki grundvallaratriði í vetrarfjallamennsku þegar þeir komu hingað. Áherslan er hins vegar öll á ytri umbúnað, sjónvarpsútsendingar og fl. þ.h. Af svipuðum meiði er indónesiski leiðangurinn hér. Hann hefur að vísu sér til halds og trausts þrjá af fremstu Himalayaklifrurum Rússa og þeir eiga eftir að koma Indónesum á toppinn. Okkur finnst rétt og skynsamlegt að leita sér sérþekkingar á þröngu sviði ef löng reynsla er ekki fyrir hendi eins og til dæmis fjallamennska yfir 8.000 m. en finnst hins vegar nauðsynlegt að hafa nægilega reynslu og þekkingu til að geta treyst fullkomlega á sjálfan sig þegar hætta á lífi og limum en ekki að vera algjörlega upp á aðra kominn.
Hér blundar líka metnaður fyrirtækja. Flestir hér, þar á meðal við, eru studdir af fyrirtækjum sem sjá samsvörun í sínu starfi við metnaðinn og markmiðin sem hér ríkja. Öfgarnar eru í japanska leiðangrinum sem er hingað kominn til þess eins að koma fána japansk snyrtivörurisa á toppinn. Þar eru jenin ekki spöruð, þyrla flytur birgðir í grunnbúðir og með er ótölulegur fjöldi aðstoðarmanna. En algengasti metnaðurinn er sá sem við skiljum best. Fjallamenn að láta drauminn rætast. Hér eru fjórir alþjóðlegir leiðangrar, tveir bandarískir, ítalskur-, rússneskur- og kanadískur leiðangur auk þeirra sem áður eru taldir, ýmist á leið á Lhotse eða Everest. Það eru allt að 90 manns sem stefna á Everest þótt fæstum muni takast það, flest ákaft fjallafólk með sjónirnar upp á við og margir sem eru að koma í annað og þriðja sinn til að reyna. Og svo erum við hér, frá litlu landi sem aldrei hefur átt mann á þaki heimsins og þeir okkar sem stefna hæst eru einbeittir í að gera sitt besta, að gera sitt allra besta til að láta drauminn rætast og leyfa bláa, hvíta og rauða fánanum að berjast um í rokinu á hátindi Mount Everest.
Efst Dagbókarbrot frá Everest
Það er óneitanlega merkilegt fyrir okkur drengina ofan af Íslandi, vönum fullkomnum samgöngum og fjarskiptum að upplifa hverning þessum málum er háttað hér í Himalayahéruðum Nepals. Hér er enginn sími, engir vegir eða flutningarbílar og raun fátt af því sem við teljum nauðsynlegt til að geta flutt fréttir, fólk og varning á milli staða. Samt sem áður þrífst hér blómlegt mannlíf og menning. Hér er sums staðar í dölunum hægt að kaupa ótrúlega margt, þrátt fyrir að hvergi sjáist vélknúið ökutæki og hafi aldrei sést. Tuttugasta öldin hefur hafið hér innreið sína en með sérkennilegri blöndu af gömlum lifnaðarháttum og flutingatækni. Nútíminn er nefnilega fluttur inn í þrönga fjalladalina eins og allir flutningar hafa farið fram um aldir, með burðarmönnum og jakuxum. Þeir flugvellir sem hér eru, í Namche Bazaar og Lukla, eru í raun aðeins notaðir til að flytja ferðamenn og búnað þeirra inn í héraðið. Innfæddir hafa ekki efni á því að margfalda flutningskostnaðinn með því að nota sér þá. Því er flest það sem hér er notað og selt, flutt á gamla móðinn, allt frá bæ sem heitir Jiri en þar endar vegurinn frá Kathmandu, höfuðborg Nepal. Gönguleiðin frá Jiri til Namche er nær 100 km og er um fjöll og dali að fara. Samtals þarf að ganga á brattann um 8 km ef allar brekkur er taldar. Þessi slóði er orðinn greinilegur og auðrataður eftir aldalanga umferð um hann. Steinhleðslur eru þar sem bratti er mikill og stuðnings er þörf. Allar ár eru brúaðar, flestar með hengibrúm, sumar eru fornfálegar og glæfralegar, en aðrar háar og nýtískulegar byggðar með vestrænni aðstoð til lyfta brúnum upp í hæð þar sem flóðavatn getur ekki náð til þeirra.
Það er byggð alla þessa leið nema í hæstu fjallaskörðum og stutt á milli þorpa. Í þeim hefur í gegn um aldanna rás byggst upp þjónusta við flutningana, gistiheimili, matsölustaðir og annað sem til þarf. Þessi þjónusta hefur tekið stakkaskiptum til batnaðar og aukist mikið á undanförnum 30 árum með auknum fjölda ferðamanna sem uppgvötuðu á 7. og 8. áratugnum hversu mikla lífsfyllingu það gefur að ferðast á hestum postulanna vikum saman í framandi landslagi og heillandi mannlífi. Aðstaðan í þessum gistiheimilium og veitingastöðum (sem eru kölluð teahouse á þessum slóðum á öllum tungumálum) er samt langt frá því að vera á því stigi sem við könnumst við frá Evrópu. Hér er óvíða rafmagn, salernisaðstaða er oftar en ekki kamar, svefnaðstaða er ókynt og borða allir saman við ofninn sem er á neðri hæðinni. Það er nokkuð um að ferðamenn verði fyrir menningarsjokki þegar hingað er komið, en hér er ekki um annað að ræða en að taka lífinu með ró, aðlagasta siðum heimamanna, venjast þessu útilegulífi og brosa, því þetta fjallafólk er lífsglatt og brosmilt og það er hægt að komst miklu lengra á brosinu en með vestrænni þvermóðsku og tilætlunarsemi.
Það er mikil umferð um stíginn. Burðarkarlarnir eru gjarnan í 5-10 manna hópum. Lausavöru flytja þeir í stórum körfum en stærri hluti reyra þeir saman. Allt er svo borið á bakinu en þunginn er allur á breiðu bandi sem er yfir höfuðið. Þunginn á byrðunum er yfirleitt frá 30-60 kg en fyrir þyngri byrðarnar er borgað tvöfalt. Við prófuðum að bera byrði af timbri á leiðinni og það var varla að við stæðum undir þunganum og höfuðið virtist vera að þrýstast ofan í hálsinn. Við giskuðum á að þyngstu byrðar sem við sáum væru allt að 80 kg. Burðarmennirnir eru grannir, snaggaralegir karlar. Þeir ganga fremur hratt með byrðarnar en hvíla sig oft. Þeir eru með litla stafi sem þeir geta brugðið undir hlassið til að taka þungann af. Einnig eru bekkir úr tré eða steinhleðslu fyrir utan öll tehúsinn. Hæðin er miðuð við að byrðin fari þar á en ekki að setið sé á þeim. Þarna hvíla karlarnir sig í nokkrar mínútur og segja brandara og gera grín að okkur láglendisbúunum sem göngum fram hjá með litlar byrðar en másandi af súrefnisskorti.
Hér gilda lögmál markaðarins eins og annars staðar. Verðlag hækkar eftir því sem meiri kostnaður er við að koma vörunni til neytanda. Hér má segja að verð á munaðarvöru eins og súkkulaði, gosdrykkjum, bjór og klósettpappír af sæmilegum gæðum hækki jafnvel á milli þorpa. Verð á þessum vörum er orðið allt að helmingi hærra hér efst í Himalayafjöllum en það er niður í Lukla þar sem við hófum gönguna. Þessir hlutir eru í raun orðnir allt of dýrir fyrir almening og ekki á færi nema vellauðugra" Vesturlandabúa að kaupa þá. Til dæmis kostar stór bjórflaska hér efst í dölunum um 300 kr. en það eru daglaun burðarmanns sem ber 30 kg. Verð á heimaframleiðslu og hefðbundum mat hækkar hinsvegar ekki svona stórkostlega. Fréttir og skilaboð berast með sömu boðleið og vörurnar, það er með burðarmönnum. Alvarlegasta áfallið sem við höfum enn orðið fyrir í ferðinni var þegar Einar uppgvötaði í Namche að hann hafði tapað giftingarhringnum sínum. Einar gifti sig í febrúar og var að vonum miður sín. Við félagarnir og aðrir leiðangursmenn fundum mjög til með Einari og þótti þetta slæmur fyrirboði. Það var leitað dyrum og dyngjum og öllu snúið við í leit að hringnum en ekkert fannst. Þá var bara ein von eftir og hún var veik. Að Einar hefði tapað hringnum kvöldið áður í þorpinu Phakdingma þar sem við áttum náttstað. Við töldum hverfandi líkur á því að hringurinn myndi nokkurn tíma skila sér þótt svo væri. En Babu, einn af sherpunum okkar, lét senda skilaboð niður til Phakdingma með burðarmanni sem var á leið niður eftir dalnum. Næsta dag birtust svo 5 eða 6 tíu ára snáðar heldur niðurlútir og feimnir með umslag í höndunum og væfluðust í kring um okkur þar sem við vorum í óða önn að senda fréttir heim. Þegar við gengum á þá, réttu þeir okkur umslagið. Í því var lítill miði með skilaboðum frá húsfreyjunni í Phakdingma - og hringurinn. Hann hafði leynst í rúmfötunum í herbergi Einars þar og húsfreyja sendi strákana með hann strax og hún frétti hvar eigandann var að finna. Strákarnir hlupu svo með hann 10 km leið og upp um 700 m til okkar. Einar stökk hæð sína í öllum herklæðum af gleði og við hinir sáum lukkudísirnar brosa við okkur. Það er ljóst að Einar á húsfreyju skuld að gjalda þegar við göngum niður eftir sjö vikur. Og nú er hringurinn í traustu bandi um háls Einars. Það er því ljóst að svona vandamál er hægt að leysa þótt enginn sé síminn, vegurinn eða bílinn. Viljinn er allt sem þarf.
Bestu kveðjur heim frá grunnbúðum á Everest.
er skemmtilegur staður. Hér er höfuðborg Shepanna og
miðpunktur Khumbu héraðsins. Sherparnir sjálfir kalla þorpið Nauche.
Namche á sér aldalanga sögu. Hér var í árhundruð miðpunktur verslunar milli
Tíbet í norðri og Nepals og Indlands í suðri. Tíbetar seldu salt og
yakuxaull suður yfir Himalayafjöllin í skiptum fyrir kornvöru, hrísgrjón og
sót til blekgerðar. Stór hluti þess sem fór norður yfir var smjör til að
brenna í smjörkertum í ótölulegum fjölda Lamaklaustra í Tíbet. Sherparnir
voru milligöngumenn um öll þessi viðskipti og sáu að mestu um flutningana
yfir hið 5.300m háa Lang Pa La skarð, vestan Cho Oyu sem eru okkur
kunnuglegar slóðir. Namche Bazaar hefur því alltaf verið ríkt þorp. Þessi
verslun hrundi alveg upp úr 1950, þegar Kínverjar hernámu Tíbet og lokuðu
fjallaskörðunum. Þjónusta við fjallaleiðangra og ferðamenn varð afkomu
Sherpanna til bjargar. Gönguleiðin upp Khumbu dalinn er sú vinsælasta í
Nepal og tugir þúsunda ferðamanna leggja það á sig að ganga upp til Namche á
hverju ári.
Þorpið er í skálarlaga syllu í brattri fjallshlíð. Íbúar eru um 500 talsins.
Hér er allt bratt og það er um 100m hæðarmunur á milli efsta og neðsta hluta
þorpsins. Húsin eru ein til þrjár hæðir, allt frá óhrjálegum hjöllum með
tré- og stráþökum sem þyngd eru niður með steinum, að ágætlega hlöðnum
steinhúsum með bárujárnsþökum. Gluggarnir eru stórir og flestir málaðir í
skærum ljósbláum lit, sem gefur bænum skemmtilegan svip. Göturnar eru
þröngar, flestar aðeins moldarstígar en nokkrar með einhverskonar
steinhleðslu. Hér er mjög sérkennileg blanda af frumstæðum einfaldleika og
nútíma tækni. Allt vatn er borið í brúsum frá lindinni sem er neðst í
þorpinu. Þegar hæðarmunurinn er 100m er enginn hægðarleikur að burðast með
25-30 lítra brúsa heim. Samt eru það oft börnin sem eru send eftir vatninu
og það er vissulega skrítið að sjá 6-7 ára börn með byrðar sem eru ekki
fjarri þeirra eigin líkamsþyngd. Hér er líka allt þvegið í höndunum við
steinsteypta laug neðan við vatnsbólin. Sum húsin eru mjög frumstæð, hituð
með brennslu á timbri og þurrkuðum yakuxaskít. Á húsunum er enginn
reykháfur heldur sér maður reykinn liðast út með þakskegginu. Hér eru hins
vegar margir nokkuð vel stæðir eftir velgengni í ferðamannabransanum, eða
langan og góðan feril sem aðstoðarmenn í fjallgönguleiðöngrum. Hér gægjast
því nokkrir gervihnattadiskar upp úr görðunum og efnuðustu
háfjallasherparnir eru í fokdýrum fjallafötum frá Vesturlöndum. Hér er
líka rafmagn. Austurríkismenn byggðu litla vatnsorkuvirkjun í dal hér fyrir
neðan árið 1983. Rafmagn er því í stærstu húsunum, en bara á milli kl. 18
og 24. Við njótum þess því að geta hlaðið allt rafmagnsdótið úr innstungu
í síðasta sinn í tvö mánuði. Lýsingin er eingöngu frá 20 W flúorperum. Philips fyrirtækið gaf sérstakar sparperur árið 1983, en þær eru
allar löngu sprungnar og allt of dýrar til þess að unnt sé að endurnýja þær.
Tóm perustæðin eru til vitnis um góðvild og gjafmildi sem ekki hafði verið
hugsuð til fulls. Sem betur fer eru allar raflagnir lagðar í jörð, því
loftlínur hefðu spillt ásýnd þorpsins.
Götulífið hér er litríkt. Götusalar bjóða fallegan varning frá Nepal og
Tíbet, afgangsbúnað frá fjallaleiðöngrum, matvöru og fleira, allt í einum
hrærigraut. Hér er meira og minna allt til og það er ótrúlegt að hugsa til
þess að það er allt borið hingað upp eftir. Verðlagið er ekki hátt á
íslenskan mælikvarða. Nótt á gistiheimili kostar frá 30 kr. nóttin fyrir
tveggja manna herbergi upp í 300 kr. Kvöldverður er á 30 - 150 kr.
Hinsvegar er gos og vestrænt sælgæti dýrt enda er um langan veg að fara.
Þannig kostar kókflaska það sama og tveggja rétta kvöldverður.
Í grunnskóla staðarins eru þrír bekkir með með börnum á aldrinum 3-11 ára.
Stofurnar eru þrjár og hver aðeins um 3x2m og átta til 10 börn í hverri.
Þegar við heimsóttum skólann var kennarinn aðeins einn og hafði hann því í
nógu að snúast. Taflan er gerð úr svartmáluðum viðarfjölum. Í skólanum var
mikið sungið og í frímínútum safnast öll börnin út á litla flöt utan við
skólann og syngja þjóðsönginn og fara í leikfimi.
Klukkustundar gang fyrir ofan bæinn er svo einkennilegt stílbrot. Þar var
byggt fyrir nokkrum árum hlaðið hótel með útsýni yfir Everest. Þar ganga
þjónar um í jakkafötum og það er hægt að fá súrefni og loftþrýst herbergi.
Herlegheitin kosta hinsvegar 200 dollara nóttin eða 1.000 falt það ódýrasta í
bænum. Hótelið var byggt fyrir efnameiri ferðalanga sem ekki gáfu sér tíma
til að labba upp að fjallinu en vildu njóta útsýnis yfir Everest. Það er
ótrúlega stutt flugbraut rétt hjá hótelinu. Þar lenda aðeins flugvélar af
Pílatus gerð svo og þyrlur. Okkur leist svo á að rekstur hótelsins gangi
ekki vel og heldur var staðurinn í niðurníðslu. Við snæddum þar
stjarnfræðilega dýran hádegisverð og virtum fyrir okkur viðfangsefni næstu
vikna og stórbrotna fegurð fjallanna. Vissulega má deila um þau áhrif sem
svona stofnun hefur á menningu og þjóðfélag Sherpana en áhrifin eru í raun
ekki svo mikil því megin þorri ferðamanna og fjallaleiðangra sneiðir hjá
þessu hóteli og kýs meiri nálægð við innfædda og menningu þeirra.
© 1997 Morgunblašiš