Heimasķša |
Í hlíðum hæsta tindsins Leið þeirra félaga upp Everest er sú sama og Hillary og Tensing fóru þegar þeir klifu fjallið fyrstir manna 1953. Upp hinn stórbrotna Khumbu-skriðjökul sem með réttu má nefna falljökul eða ísfall, því hann er yfir 1.000 metra hár og skríður fram um metra á sólarhring og breytist því stöðugt. Það þarf því alltaf að vera að finna nýja leið í gegnum ísföllin sem myndast. Yfir miklar sprungur þarf að fara á leiðinni og eru þær brúaðar með löngum álstigum, sem glatast öðru hverju þegar sprungurnar opnast meira eða falla saman. Ofan ísfallsins er komið í Vesturdal og fremst í honum eru aðrar búðir, í um 6.300 m hæð. Vesturdalur er rúmlega tveggja kílómetra langur og rís um 600 m inn í botn. Leiðin liggur upp dalinn og síðan upp Lhotse-hlíðar í þriðju búðir í um 6.900 m hæð og fjórðu búðir í miðjum Lhotse-hlíðum í um 7.600 m hæð. Að lokum er komið upp í skarðið á milli Lhotse og Everest, Suðurskarð. Þar eru fimmtu og efstu búðir í nær 8.000 m hæð. Gengur smám saman á orkubirgðirnar Mikill tími þeirra félaga fer í búðaráp", því það tekur líkamann langan tíma að ná hæðaraðlögun. Styrkur súrefnis í andrúmsloftinu fellur hratt með aukinni hæð yfir sjávarmáli og styrkur súrefnis á toppi Everest er um 30% af því sem hann er í Reykjavík. Vel þjálfaður maður mæðist við það eitt að draga andann, enda er Everest 8.848 m á hæð eða 29.029 fet, sem er ekki mikið undir flughæð flugvéla í millilandaflugi, tíföld hæð Esjunnar. Áreynslan á líkamann er svo mikil að jafnvel þótt ekkert sé aðhafst nema að borða og sofa, þá gengur smám saman á orkubirgðirnar. Það er því ekki hægt að hækka sig jafnt og þétt upp fjallið heldur verður alltaf að fara nægilega langt niður á milli til að gefa líkamanum tækifæri til þess að hvílast eðlilega og ná upp orku fyrir næsta áfanga. Þeir leiðangursmenn hafa sent myndir með aðstoð tölvutækninnar; um farsíma og gervihnött til Íslands, en gæði slíkra mynda eru eðlilega nokkuð takmörkuð. Þær myndir sem hér sjást voru sendar með burðarmönnum til Kathmandu og þaðan krókaleið til Íslands, en þeir Einar og Björn eru höfundar myndanna. Svipmyndir frá Namche Bazaar. Einar bregður sér í gervi slöngutemjara í höfuðborg sherpanna og miðpunkti Khumbu héraðsins. Siddar eða heilagir menn í trú Nepala, yfirvegaðir og rólegir. Litskrúðug trúarbrögð Nepala eru hvarvetna sýnileg eins og til að mynda í þessum bænaveifum frá Namche Bazaaar. Hallgrímur í búðarápi" í Vesturdal. Eins og sjá má er hann vel varinn í framan, enda er sólin hættulega heit í þessari hæð, þrátt fyrir frost og frera. Eins gott er að fara hægt yfir þegar komið er í tífalda Esjuhæð, því líkaminn er lengi að venjast hæðinni og súrefnisstyrkur ekki nema þriðjungur af því sem hann er í Reykjavík. Þegar komið er í um 7.500 til 8.000 m hæð er gripið til súrefniskútannna, en þeir eru fyrst og fremst til að létta undir á lokadaginn og til nota í neyðartilfellum. Einar hefur sigrast á Khumbu-skriðjöklinum. Eins og sjá má er hann vel búinn til fótanna. Á neðri myndinni gætir hann að tánum; telur blöðrurnar. Í Khumbu-ísfallinu, skriðjökli ofan við grunnbúðir, er ísinn mulinn í tætlur og er eins og yfir verulega bratta stórgrýtisurð sé að fara. Ísmolarnir" eru frá 30 cm upp í nokkra metra í þvermál. Á milli molanna má svo víða horfa niður í ógnardjúpar sprungur. Fyrstu dagana eftir að menn koma í grunnbúðir eru þeir á þönum upp og niður hlíðar Everest til að venjast þunnu loftinu og búa sig undir áhlaupið á toppinn og þá er oft margt um manninn í ísfallinu. Ill- eða ómögulegt væri að komast á Everest ef ekki kæmi til harðsnúinn hópur sherpa sem margir þeirra hafa farið margar ferðir á tindinn. Hér gefa þeir sér tíma til að sitja fyrir á mynd, en það er í nógu að snúast fyrir þá; að koma stigum fyrir í ísfallinu, reisa búðir og fylgja leiðangursmönnum. Hallgrímur og Björn glíma við Khumbu-ísfallið, en ekki er alltaf hægt að notast við álstigana sem sífellt eru að hverfa ofan í sprungur, enda skríður jökullinn fram um metra á sólarhring. Á myndinni til vinstri sjást þeir Einar og Hallgrímur kasta mæðinni, en á hægri myndinni má sjá burðarmann rogast með þungar klyfjar. Þegar hæðarmunurinn er 100 m er enginn hægðarleikur að burðast með 2530 lítra brúsa. © 1997 Morgunblašiš Allur réttur įskilinn |