Heimasķša

Leišangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leišinni

Śtbśnašur

Fjalliš

Gestabók

Styrktarašilar

 
Dagbók leišangursmanna
Grunnbúðum, 18. apríl
Dagurinn hefur liðið við undirbúning uppferðar á morgun. Ef allt gengur eftir verður þetta síðasta aðlögunarferðin upp fjallið. Björn og Einar ásamt John Tinker, Nick og Chris Johns munu væntanlega fara beint upp í búðir þrjú og eru ekki væntanlegir niður fyrr en eftir rúma viku. Hallgrímur mun síðan sameinast hópnum á mánudag. Babú, aðal sherpinn okkar, kom niður úr þriðju búðum í dag eftir nokkurra daga dvöl. Það hafði ekki tekist að koma fyrir búðum fjögur vegna hvassviðris ofarlega í fjallinu og bíður það verkefni þar til rætist úr veðri.
Við viljum þakka öllum þeim sem hafa sent okkur kveðjur og hvatningarorð. Það hefur komið okkur skemmtilega á óvart hversu margir hafa sýnt leiðangrinum áhuga og er þessi stuðningur vel þeginn.

Efst

Grunnbúðum, 17. apríl
Þeir Hallgrímur og Jón héldu niður í dal í dag til að hrista af sér víruspestina sem hrjáð hefur suma leiðangursmenn. Með þeim fóru þeir nafnarnir Chris Wyatts og Brown, en þeir eru ver haldnir, sérstaklega Wyatts. Einnig fór einn af sherpunum okkar, sem er sá sem sá um Pujahátíðina um daginn, með þeim, en hann skar sig á fingri í gær og var sendur niður með hinum til þess að flýta fyrir því að hann næði sér.
Við getum ekki lengur keyrt tölvuna okkar með sólarrafhlöðum eftir að nauðsynlegt millistykki brann yfir í morgun. Þrátt fyrir ýtrustu varúðarráðstafanir hafa straumbreytar og aukabúnaður ekki þolað aukaálagið sem misgott rafmagnið hefur valdið. Samskipti okkar við umheiminn takmarkast því nú við síma. Það stendur hins vegar til bóta því að við eigum von á varahlutum með þyrlu á allra næstu dögum. Sumir koma með DHL alla leið frá Íslandi, en aðra var hægt að útvega í Khatmandu.
Einar lenti í miklu ævintýri í dag. Hann er mikill dýravinur og ákvað að temja jakuxa mikinn, sem lokið hafði að bera til okkar vistir og jórtraði í makindum nálægt tjöldunum okkar. Einari hafði tekist þetta sama með annan uxa neðar í dalnum á leiðinni upp eftir. Jakuxar eru hins vegar ekki mikið fyrir gælur og klapp og breyttist tamningatíminn á örskammri stundu í spretthlaupsæfingu hjá Einari þegar jakuxinn ákvað að hafa horn í síðu hans. Er það mál manna hér að Einar eigi nýtt heimsmet í spretthlaupi í 5.300 metra hæð, en jakuxinn neðar í dalnum hafi væntanlega legið fyrir dauðanum.

Efst

Grunnbúðum, 16. apríl
Í dag var hvíldardagur, stundaðir voru þvottar, bæði á fatnaði og líkama og hefðbundinnar sólríkju fyrripartinn notið en haldið til tjalda þegar snjóa fór seinni partinn. Við bárum fram rifinn harðfisk úr Önundarfirði með írsku smjöri með kvöldmatnum í gærkvöldi og vakti hann mikla lukku hjá erlendum félögum okkar. Fimm flök hurfu eins og dögg fyrir sólu og það er ljóst að við berum hann ekki á borð á hverju kvöldi. Harðfiskurinn hefur líka reynst vel uppi í fjalli og reynist bæði lystugur og góður matur þegar erfitt er að koma öðru niður vegna lystarleysis. Það verður því harðfiskur með í för þegar lokaatlagan verður gerð. Annars er það helst að frétta að vírussýking í hálsi og öndunarfærum hefur verið að grafa um sig hjá okkur og öðrum leiðöngrum. Chris Watts er með hana á háu stigi sem og Chris Brown þó vægari sé og verða þeir báðir að fara neðar í dalina til að jafna sig. Hallgrímur og Jón eru líka með þessa sýkingu en á mun lægra stigi og dugir nokkurra daga hvíld og lyfjagjöf til að lækna þá. Annars eru læknar búnir að biðja alla sem hér eru að vera á varðbergi og leita læknis fyrr en seinna.

Efst

Grunnbúðum, 15. apríl
Einar, Björn og Hallgrímur komu ofan úr 3. búðum í morgun. Ferðin sóttist vel þrátt fyrir smá niðurgang hjá einhverjum þeirra. Þeir voru komnir niður um kl.10:30 í morgun. Þessi þriggja nátta aðlögunarferð tókst framar vonum og nú tekur við nokkurra daga hvíld í grunnbúðum áður en haldið verður á brattann aftur. Leiðangursmenn eru nú allir komnir í grunnbúðir utan einn sem dvelst eina nótt enn í búðum 2.

Efst

Grunnbúðum, 14. apríl
Í gær skall hurð nærri hælum hjá þeim félögum Hallgrími, Einari og Birni. Í gærkvöldi, er þeir voru að elda kvöldmatinn í 2. búðum, fór eitthvað verulega úrskeiðis með eldunartækið. Svo virðist sem slanga sem fæðir gas frá gaskútnum að brennaranum hafi gefið sig, eða ventill á þeirri leið, með þeim afleiðingum að af varð mikið bál. Hárið á Hallgrími sviðnaði aðeins, fordyrið og hluri af innra tjaldinu brann og ein dýna skemmdist í eldinum, en þeim varð ekki meint af. Nóttin varð hins vegar fyrir vikið nokkuð sérstök. Í stað þess að sofa í góðu fjallatjaldi, var gist í nokkurskonar tjaldskúta, þar sem hvergi skyggði á útsýni, stjörnubjartur himininn blasti við þeim úr vistarverunum, og ekki var hægt að kvarta undan loftræstingunni, þessa nótt var hún með eindæmum góð.
Í morgunsárið komu þeir sér á fætur snemma, enda engin ástæða til að hanga í tjaldleifunum í 20 stiga frosti, svo stefnan var tekin snemma í morgun á 3ju búðir, þar sem ætlunin er að gista í nótt, og koma svo niður og hvíla á morgun. Hörður hélt upp Khumbu ísfallið í morgun og var kominn í tjaldbúðaleifarnar fyrir kl.11 en greip í tómt (eða í brunnar leifar réttara sagt) enda tjaldbúar snemma á fótum af fyrrgreindum ástæðum. Hann lenti svo í því að aðstoða einn af leiðangursmönnum á leið niður fallið en sá var orðinn nær ósjálfbjarga af veikindum. Honum heilsast sem betur fer betur nú undir kvöld. Það er óhætt að taka undir fyrri lýsingar þremenninganna á ísfallinu, Þarna er náttúran í sinni stórbrotnustu mynd.

Efst

 

© 1997 Morgunblašiš
Allur réttur įskilinn