Heimasķša

Leišangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leišinni

Śtbśnašur

Fjalliš

Gestabók

Styrktarašilar

 
Dagbók leišangursmanna

Grunnbúðum, 27. apríl
Hallgrímur fór upp í 4. búðir ásamt Chris Watts, Chris Brown og Eric í morgun. Ferðin gekk vel, betur en hjá fyrri hópum enda eru þeir félagarnir allir búnir að hrista af sér veikindi og í góðu formi. Hyggjast þeir dvelja í nótt í búðunum sem eru í um 7300 - 7400 m hæð. Hafa þá bæði Björn og Hallgrímur sofið þar. Þetta eru næst hæstu búðir sem Íslendingar hafa dvalið í, en Einar, Björn og Hallgrímur áttu nótt í 7600m hæð á Cho Oyu. Jon Tinker leiðangursstjóri og Hugo héldu á eftir öðrum leiðangurmönnum til Dingboche í dag til hressingar.
Indónesar hófu í fyrrinótt tilraun til að komast á hátind Everest. Þeir eru búnir að vera hér mun lengur en aðrir og voru tilbúnir fyrir nokkrum dögum. Veður og færi var ekki eins og best verður á kosið enda Indónesar óvenju snemma á ferðinni. Þeim sóttist ferðin seint og það var ekki fyrr en um 16 í gær sem einn Indónesi ásamt tveimur Rússum og tveimur Sherpum náðu tindinum eftir að hafa gengið mestalla nóttina og allan daginn úr Suðurskarði. Aðrir urðu frá að hverfa á leiðinni. Fimmenningarnir náðu svo ekki niður fyrir myrkur og urðu að láta fyrirberast í 8400m hæð í nótt sem er ákaflega erfitt vegna kulda og súrefnisskorts. Þeir höfðu þó lítið tjald, primus og tvo svefnpoka saman. Þegar þetta er skrifað um kl 13 eru þeir enn ekki komnir niður í Suðurskarð en allar líkur á að það takist von bráðar. Þetta er búin að vera mikil þrekraun en ísinn er þó brotinn og Indónesar hér í grunnbúðum ganga um hnarreistir þótt einungis einn þeirra manna hafi náð settu marki enda er það alveg nóg.

Efst

Grunnbúðum, 26. apríl
Hallgrímur fór í dag upp í Lhotsehlíðar áleiðis að búðum 4. Hann, Chris Watts og Chris Brown fóru upp í nær 7.000m hæð áður en þeir sneru í búðir 3 og gekk ferðin vel í alla staði. Hallgrímur er við bestu heilsu og hyggst fara í búðir 4 á morgun.
Björn fór niður til Dingboche í dag ásamt Chris Jones og Mark Warham. Þeir munu þar safna kröftum eftir átökin síðustu daga. Við eigum von á Einari uppeftir aftur allra næstu daga til að halda áfram aðlöguninni en því miður er ekki hægt að eiga samskipti við Dingboche.
Indónesar sem komu hingað 3 vikum á undan okkur eru nú reiðubúnir að reyna við toppinn. Þeir sem sáu þá í 3. búðum sögðu þó Indónesana tvo þreytta og áhyggjufulla með veðrið sem er í raun ekki nógu gott ennþá, þótt það fari batnandi, en Rússana sem fylgja þeim þeim mun baráttuglaðari. Við óskum þeim alls hins besta og allir hér í grunnbúðum fylgjast spenntir með þessari fyrstu tilraun ársins.

Efst

Grunnbúðum, 25. apríl
Hallgrímur á hvíldardag uppi í þriðju búðum í dag. Hann er við góða heilsu og á von á að fara upp í fjórðu búðir á morgun eða hinn. Félagar okkar sem með honum eru telja hvíldina að vísu fullmikla því að hann er sá þeirra sem sefur best og nýtir hann þennan eiginleika óspart og þarf að vekja hann bæði í hádegis- og kvöldmat.
Björn er með smá aðkenningu að vírussýkingunni sem hrjáð hefur leiðangurinn og eru þá allir leiðangursmenn búnir að fá sýkinguna. Hann er samt vel haldinn og mun halda niður til Dingboche til hvíldar með Jon Tinker, Chris Jones og Mark Warham á morgun. Þar mun hann hitta Einar og koma þeir félagar aftur uppeftir eftir nokkra daga.
Þeir sem hafa verið hér áður segja að veðrið undanfarnar vikur hafi verið óvenju kalt og höfum við ekki farið varhluta af því. Veðrið efst í fjallinu hefur farið batnandi undanfarna daga og er það merki um vorkomuna. Eins og staðan er í dag lítur því út fyrir að tímasetningin hjá okkur sé nokkuð góð og líkur á að allir verði tilbúnir um leið og veður gefur tækifæri til uppgöngu.

Efst

Grunnbúðum, 24. apríl
Hallgrímur hélt í morgun áleiðis í búðir 3. Honum gekk vel og hann var kominn þangað fyrir hádegi. Chris Watts og Chris Brown sem fóru með honum voru ekki komnir upp síðast þegar fréttist.
Björn kom niður úr búðum 3 í dag. Einnig komu niður Jon Tinker, Chris Jones og Mark Warham. Þeir eru allir þreyttir eftir nær viku uppi og tvær nætur yfir 7.000m hæð. Þeirra aðlögun er nú lokið í bili og næsta verkefni að safna kröftum á ný.
Það er alveg ótrúlegt hversu erfitt er að athafna sig þegar 7.000m er náð. Smæstu verkefni verða stór og þegar þrekið er búið er erfitt að ná því aftur. Chris Jones var til dæmis aðeins 50 m á eftir Birni upp í búðir 4 en það tók hann rúma klukkustund að staulast þá metra.
Hallgrímur tók með sér aukatalstöð sem við erum með og aukarafhlöður til að skilja eftir í búðum 3 svo samband sé við leiðangursmenn þótt við séum ekki á staðnum.
Við höfum undanfarna daga reynt að ná stuttbylgjusendingum Ríkisútvarpsins hér en án nokkurs árangurs. Okkur er farið að langa að heyra fréttir að heiman öðruvísi en á skeytaformi, en við verðum víst að sætta okkur við þetta.
Það er rétt að taka fram að hægðir okkar leiðangursmanna, sem virðast mikið áhugaefni heima, eru nú með mestu ágætum. Má ganga út frá því að svo sé þar til annað verður látið uppi héðan.
Loftþrýstingur fer nú hækkandi hér í grunnbúðum enda við hæfi nú í upphafi sumars. Vonandi er það merki um að veður fari nú batnandi og að bráðum gefist færi á að reyna við tindinn. Þangað til látum við hverjum degi nægja sín þjáning.

Efst

Grunnbúðum, 23. apríl
Hér í grunnbúðum gerðust þau sorgartíðindi í morgun að Mal Duff leiðangursstjóri í alþjóðlegum leiðangri sem við höfum átt mikil samskipti við fannst látinn í tjaldi sínu. Hann var 45 ára og virðist hafa látist af eðlilegum orsökum. Við höfum verið önnum kafnir Íslendingarnir í grunnbúðum við að koma skilaboðum upp í fjall og einnig höfum við aðstoðað við að ná í ættingja í Skotlandi og tekið við símtölum þaðan.
Einar hélt niður til Dingboche í morgun sér til heilsubótar, en Jón kom uppeftir í gærkvöldi með Chris Watts og voru þeir hressir og kátir, þrátt fyrir 20 km göngu og eru greinilega búnir að ná sér. Björn kom niður úr fjórðu búðum í dag og ætlar að hvílast í þriðju búðum til morguns og koma þá niður. Hallgrímur hugðist fara upp í þriðju búðir í morgun ásamt Chris Brown en ekkert varð úr því vegna snjóa. Þeir halda á brattann í fyrramálið.

Efst

Grunnbúðum, 22. apríl
Björn dvaldi í nótt, við þriðja mann, í fyrsta sinn í búðum 4. sem eru í um 7400m hæð. Hann var hress eftir atvikum þegar við höfðum talstöðvarsamband við hann í morgun og hugðist reyna að klífa í átt að Suðurskarði í dag en þar verða 5. búðir og þaðan verður áhlaupið á tindinn í næsta mánuði. Hann ætlar svo að eiga aðra nótt í 4. búðum. (Enda þykir verðlag þar mjög gott).
Einar er enn verulega kvefaður og ekki viðlit fyrir hann að fara upp í fjall aftur enn sem komið er. Hallgrímur er orðinn hress og óþreyjufullur og mun halda í 3. búðir í nótt með Chris Brown og hitta þar Nick og Hugo sem fóru upp í gær.
Veður efst í fjallinu er enn með þeim hætti að alls ófært er á tindinn. Sagan segir okkur að háloftavindarnir sem leika nú um efstu 900 metrana muni hækka sig í byrjun maí og veður þá batna og stefnir allt í það að þá verði leiðangursmenn tilbúnir í slaginn.

Efst

Grunnbúðum, 21. apríl
Nú eru þrír dagar síðan við létum heyra í okkur síðast. Það hefur enginn verið hér í grunnbúðum til að senda fréttir. Einar og Björn fóru upp í búðir þrjú á laugardagsmorgun og gekk vel. Þeir sváfu þar aðfaranótt sunnudagsins og notuðu sunnudaginn til þess að hækka sig nokkuð áleiðis í búðir fjögur. Ætlunin var síðan að fara alla leið í búðir fjögur í dag og sofa þar tvær nætur. Síðastliðna nótt fékk Einar hins vegar kvef og mikinn hósta. Hann snéri því niður í grunnbúðir í dag. Björn fór hins vegar upp í fjórðu búðir með John Tinker og Chris Johns. Hallgrímur og Hörður komu í dag í grunnbúðir ásamt Chris Brown neðan úr Dingboche þar sem þeir voru í nokkra daga sér til heilsubótar. Jón varð hins vegar eftir, en hyggst koma eftir nokkra daga.
Stærstu fréttir héðan úr grunnbúðum eru af japanska leiðangrinum. Forstjóri snyrtivörufyrirtækisins, sem stendur fyrir þessum vel búna leiðangri, 62 ára að aldri, virðist hafa ætlað sér sjálfur með fána fyrirtækisins á toppinn. Ekkert var til sparað, þyrluferðir, bestu fjallamenn Japana og ótrúlegur fjöldi aðstoðarmanna. Þessi góði maður komst að því í ísfallinu að peningar duga ekki til og ekki tókst að koma honum í aðrar búðir. Hann flaug burt í fússi í þyrlu og aflýsti öllum leiðangrinum. Japanir voru þrumu lostnir, en ekkert var annað að gera fyrir þá en að pakka saman með búnað úr fjallinu og fara að láta fyrstu 300 burðarmennina bera byrðir niður til Lukla.

Efst

 

© 1997 Morgunblašiš
Allur réttur įskilinn