Heimasķša |
Dagbók leišangursmanna Einar skokkaði hingað til okkar í grunnbúðir ofan úr þriðju búðum í morgun. Það snjóaði mikið í gær og færið niður var erfitt og Einar ruddi því slóðina. Það lítur raunar út fyrir heldur slæmt veður næstu daga. Nú hefur Einar lokið aðlögun sinni eins og Hallgrímur og Björn. Hann er hress eftir erfiði síðustu daga, þrátt fyrir þrálátan munnþurrk sem hefur valdið honum svefntruflunum. Aðstæðurnar hafa líka hagað því þannig að hann hefur tvisvar þurft að vera einn í 4. daga, fyrst í Dingboche, og svo núna uppi í fjallinu, og erum við félagar hans fegnir því að hann er nú loksins kominn til manna. Hallgrímur er enn í Dingboche en er væntanlegur fljótlega og verður þá allt liðið sameinað í fyrsta skipti í langan tíma. Annars var hér mikill hátíðisdagur í dag. Við fengum sendingu að heiman í gegnum DHL sem svo fékk far með þyrlu hingað uppeftir. Í pakkanum var ýmislegt sem okkur hefur vanhagað um rafmagnskyns, en einnig tímarit og blessaður Mogginn. Það er búinn að vera sælusvipur á okkur í dag og erfitt að ná sambandi við þá sem eru með höfuðið í hvarfi á bakvið blaðið. Í pakkanum voru einnig hálstöflur, sælgæti og gæðakaffi að ógleymdum reykta laxinum. Það er til marks um hvað heimurinn er lítill að hann var í fullkomnu lagi og leiðangursmenn allir nutu samloka með íslenskum reyktum laxi í hádeginu. Við og aðrir leiðangursmenn stöndum í þakkarskuld við þá sem fyrir þessari sendingu stóðu. Efst Grunnbúðum, 2. maí Einar kom niður úr 4. búðum í dag og ætlar að dvelja í 3. búðum fram á morgundag. Hallgrímur er í Dengboce sér til andlegrar og líkamlegar upplyftingar og er væntanlegur upp á sunnudag. Nú er farið að velta fyrir sér hverjir verða í fyrsta hópnum sem reyna við tindinn og hvenær þeir fara. Það er ljóst að við Íslendingarnir verðum allir í einum hóp en ekki þeim fyrsta, að öllu óbreyttu. Hvenær fyrsti hópur leggur af stað er óljóst enþá en það mun væntanlega skýrast á næstu tveimur dögum. Dagurinn hefur farið i umræðum um stórsigur verkamannaflokksins í Bretlandi og eru sumir íhaldsmennirnir hér heldur rislágir. Annars fóru hér fram kosningar í gærkvöldi og tóku allir kosningabærir Bretar þátt. Fyrir utan hina hefðbundu bresku flokka var hér í framboði kartöfluflokkurinn sem Cris Brown bóndi leiddi. Eftir að öll átta atkvæðin höfðu verið talinn undir eftirliti alþjóðlegra eftirlitsmanna var ótvíræður siguvegari kvöldsins hinn nýi kartöfluflokkur. Efst Grunnbúðum, 1. maí Einar er greinilega í fínu formi. Hann skundaði úr 3ju búðum upp í þær fjórðu á rúmum fjórum tímum í morgun. Það er samt hálfeinmanalegt hjá honum, hann er einn þar uppi. Talstöðvarsambandið okkar svíkur samt ekki og við höfum samband á þriggja tíma fresti. Hallgrímur fór á skokki um hádegisbilið áleiðis til Dingboche og ætlar að vera 3-4 daga. Hann mætti Birni á leiðinni en hann kom í grunnbúðir aftur frá Dingboche eftir 5 daga fjarveru um kl 13. Einnig komu hingað Mark, Chris Jones, Jon Tinker og Hugo. Hallgrimur og Hörður fengu að kynnast því í dag í návígi hversu nálægt ystu mörkum 5200 m hæð er, bæði fyrir vélar og menn. Þeir fóru í morgun með pakka sem þeir ætluðu að koma á þyrlu sem von var á frá Kathmandu. Meðan þeir biðu kom þyrla frá Nepalska flughernum með bandaríska blaðamenn sem ætluðu að taka hér viðtöl við bandaríska fjallgöngumenn. Flugmaðurinn misreiknaði aðflugið og rak stélið niður rétt áður en hann komst inn á lendingarstaðinn. Það munaði sentimetrum að hann ræki afturspaðana í metraháann stein og þá hefði ekki verið að sökum að spyrja. Honum tókst að lenda vélinni og blaðamennirnir stigu út. Annar þeirra, stúlka, hneig þegar niður meðvitundarlaus af súrefnisskorti og lá í hrúgu undir spöðunum. Á meðan komið var í hana súrefni úr kút og henni komið á fætur, var eldsneyti hellt á vélina úr brúsa og úðinn stóð í allar áttir því hér eru vélarnar látnar ganga á meðan þyrlurnar staldra við. Björgunarsveitarmenn ofan af Íslandi, vanir fumlausum og fagmannlegum vinnubrögðu flugmanna Landhelgisgæslunnar stóðu gapandi í hæfilegri fjarægð og horfðu á aðfarir Nepalanna. Það var líka sláandi að sjá hvernig óaðlagað fólk bregst við hér í þessari hæð. Blaðamennirnir voru svo sóttir klst. síðar af sömu þyrlu og voru búnir að fá nóg. pAnnars er kominn kosningahamur í breska félaga okkar hér. Þeir ætla að hlusta á kosningaútvarp BBC ef nokkur möguleiki er, en til vara eru þeir með sínar eigin kosningar hér með framboð frá öllum þremur flokkunum og einum að auki. Chris Brown er í framboði fyrir Kartöfluflokkinn en hann er kartöflubóndi að atvinnu og helsti áhugamaður leiðangurssins um kartöflurétti. Framboð Þorskaflokksins sem hafði það á stefnuskrá sinni að hefja þorskastríðið að nýju var dregið til baka vegna mikillar og eindreginnar andstöðu alþjóðlegra eftirlitsmanna sem eru af íslensku bergi brotnir. Efst Grunnbúðum, 30. apríl Einar hélt kl. 4 í nótt upp í þriðju búðir. Það höfðu orðið skemmdir í ísfallinu og þeir sem urðu samferða Einari sneru við, en honum þótti komið nóg af hangsi og töfum, og kleif framhjá skemmdunum. Hann var kominn upp í þriðju búðir um kl. 10 og er í fínu formi. Þeir umhverfisáhugamenn sem mestan áhuga hafa haft á hægðum okkar félaga hafa efalaust haft nagandi áhyggjur af því hvað yrði um afurðirnar. Þeim til hugarléttis skal það upplýst að allt gumsið er flutt í tunnum niður fyrir jökulinn og komið fyrir þar sem nokkur möguleiki er að rotnun sé möguleg. Það eru yfirvöld hér sem sjá um losunina í formi tveggja kræklóttra karla, heldur brúnleitra og undir yfirumsjón samskiptafulltrúans okkar. Það er til marks um okkar góðu matarlyst og hægðir að nú í dag losaði leiðangurinn sig við 157kg af fyrrnefndri afurð og greiddi fyrir yfir 5.000 rupiur eða um 6.000 ísl. kr. Þess má nærri geta að þetta eru nokkrar ferðir með allt á bakinu en hver ferð tekur vinnudag. Annars er hér allt annað ástand á umhverfismálum en við héldum og má segja að þau mál séu í allt öðrum og betri farvegi en við héldum. Hér í grunnbúðum eru þessi málefni tekin föstum tökum og allt flutt burt nema matarafgangar sem eru settir í steingryfjur og krákur sjá um sorphirðuna. Það er ekki fyrr en í fjórðu búðum sem sjá má leifar frá öðrum leiðöngrum en við verðum að tjalda þar á niðurfrosnum leifum tjalda fyrri ára. Þarna er um að ræða tjöld sem yfirgefin hafa verin í aftakaveðrum og nú er ekki á færi neins í þessari hæð að höggva þau upp. Enn eigum við eftir að sjá Suðurskarð en þar er hæsti ruslahaugur jarðar. Hann fer þó alltaf minnkandi og við munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar og fjarlægja eitthvað niður. Efst Grunnbúðum, 29. apríl Hallgrímur kom niður í grunnbúðir fyrir morgunmat í morgun eftir snögga ferð úr þriðju búðum. Hann hefur nú lokið aðlöguninni og þarf bara að safna kröftum aftur. Einar er í grunnbúðum í dag en er ákafur að fara upp og ljúka sinni aðlögun eftir tafir vegna veikinda. Undanfarnar vikur hafa ekki gengið eins og björtustu vonir stóðu til. Veikindi hafa orðið til þess að Björn, Einar og Hallgrímur hafa ekki getað verið samstíga í undirbúningi og leiðangurinn á stundum verið dreifður úr 4.000m í 7.400m hæð og yfir tugi kílómetra. Þetta hefur verið leiðinlegt en ekkert við því að gera. Nú erum við hins vegar að nálgast aftur og allir verða á sama róli í næstu viku. Nú er komið að því að við erum farnir að huga að hvenær hægt er að reyna við toppinn. Við stefnum að alíslenskri topptilraun þegar allir eru tilbúnir. Það er samt ekki fyrr en í næstu viku sem við getum tekið ákvarðanir af einhverju viti, auk þess sem veðrið spilar sítt hlutverk. Efst Grunnbúðum, 28. apríl Hallgrímur og félagar eru komnir aftur niður í 3ju búðir eftir velheppnaða ferð upp í þær fjórðu. Hallgrímur er við bestu heilsu og kemur niður í grunnbúðir á morgun og hefur nú lokið aðlögun sinni. Einar kom neðan úr Dingboche í dag, að vísu tók hann tvo daga í að koma uppeftir. Hann hefur náð heilsu á ný og stefnir að því að fara upp í fjall og ljúka sinni aðlögun á næstu dögum. Þær eru farnar að skýrast línurnar með toppferð Indónesanna. Það var mjög djúpur snjór ofan við Suðurskarð og langan tíma tók að ryðja slóð. Þeir komust þrír Indónesarnir upp fyrir Hillary Step sem er í yfir 8700m hæð en tveir gáfust upp þar með takmarkið innan seilingar en einn komst upp ásamt Rússum og Sherpum. Ákvörðun þeirra sem snéru við hefur verið erfið en skynsamleg því alls ekki má nota síðustu kraftana til að komast á toppinn, niðurferðin er oft erfiðari eins og raunin varð í þetta sinn. Þeir urðu að láta fyrirberast ofan við efstu búðir í fyrrinótt og komust svo ekki nema niður í Suðurskarð í gær og urðu því að eyða þriðju nóttinni í 8000m hæð eða ofar. Það er von á þeim og aðstoðarmönnum þeirra niður í þriðju búðir í dag en það er ljóst að það var rétt sem við héldum, aðstæður eru enn of erfiðar ofan við Suðurskarð. Það er ljóst að þessi erfiðu veikindi sem leiðangursmenn hafa átt við að stríða eru að baki, aðlögunarferlinu er að ljúka og með batnandi veðri er ljóst að sjónir okkar fara brátt að beinast að toppnum. Efst © 1997 Morgunblašiš Allur réttur įskilinn |