Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Styrktaraðilar

 
Dagbók leiðangursmanna

Grunnbúðum, 18. maí
Strákarnir héldu í búðir 4 í morgun, þeir voru fljótir í förum, aðeins 4 tíma eða helmingi fljótari en sá „samferðamaðurinn" sem seinastur var.Veðrið þar efra er þokkalegt. Veðurspá fyrir daginn í 8800 m var ekki góð en strákunum sýnist veðrið þar efra vera betra en spáð var. Skv nýrri veðurspá er ekkert lát á vindinum næstu 5 daga. Það hefur verið ákveðið að halda í Suðurskarð á morgun og kanna aðstæður og meta eftir raunverulegu veðri hvort haldið verður við áætlun um að fara á toppinn aðfaranótt 20. maí eða hvort haldið verður niður á ný.

Þeir og Bretarnir þrír eru fyrsti hópur sem leggur upp með það fyrir augum að toppa síðan 26. apríl. Næstu hópar eru a.m.k. 1-2 dögum á eftir þeim. Klifrið frá Suðurskarði á tindinn verður því algerlega á eigin spýtur, því öll ummerki um mannaferðir eru löngu horfin í þeim 100 hnúta vindi sem þar hefur geisað síðustu vikur. Svo virðist sem snjórinn sem tafði för Indónesanna svo mjög, sé horfinn eftir storminn, en eftir situr ís og klettar upp hrygginn amk upp að Suðurtindi. Þetta eru bæði góðar og slæmar fréttir, slæmar því sérstaklega niðurferð getur verið varasöm, en góðar því okkar menn eru ísklifrarar að upplagi og verða því á heimaslóðum á ísnum og væntanlega fljótari í förum en margir aðrir við sömu aðstæður.

Efst

Grunnbúðum, 17. maí
Enn bíða okkar menn í þriðju búðum. Veðrið hefur lægt hjá þeim en veðurhæð á toppnum er á milli 50 og 70 hnútar. Það er samt líklegt að þeir muni færa sig upp í fjórðu búðir á morgun í þeirri von að veður lægi næstu daga og gefi kost á því að komast á toppinn. Veðurspá sem væntanleg er í kvöld gefur okkur veðurhorfur næstu 5 daga og okkar von er að hún sýni minni vind.
Það verður að viðurkenna að eftir 57 daga í Nepal og 45 daga í grunnbúðum og ofar er matseðillinn, salernisaðstaða, það að fara að sofa í litlu tjaldi í frosti og ótal margt annað farið að taka á taugarnar. Alls kyns langanir og draumar eru farnir að gera var við sig nú þegar tími er til að láta hugann líða. Stórsteikur og hamborgarar, ferskt grænmeti og ávextir, fiskur, matreiðslan hennar mömmu, bíóferðir, rólegheit yfir sjónvarpinu, mjúkt rúmið heima, það væri hægt að halda áfram endalaust. Hér á bæ er sekt við að upplýsa hugsanir og drauma af þessu tagi, sektin er 100 rupíur (um 125 kr) í hvert sinn og er reglunni framfylgt af hörku. Dómari er Mark, hann hefur rukkara sér til aðstoðar, Chris Watts gegnir hlutverki þeirrar stéttar hér og Chris Brown eða Farmer Brown eins og við köllum hann hér er gjaldkeri. Undanfarið hafa sjóðir bóndans gildnað verulega þegar saklausar sálir hafa misst út úr sér vanhugsaðar langanir. Það stefnir í að hópurinn geti haldið stórveislu á einu af veitingahúsum Kathmandu þegar þangað kemur. Þangað til er best (og ódýrast) að hugsa og tala um eitthvað annað. Og ekki orð um það meir.

Efst

Grunnbúðum, 16. maí
Skjótt skipast veður í lofti. Snemma í morgun brast fyrirvaralaust á með fárviðri uppi í búðum 3. Vindhraðinn var slíkur að ekki var stætt í verstu hryðjunum. Tjöld af öllum stærðum og gerðum fóru fljótlega að fjúka og búnaður úr þeim út um allt. Sem betur fer voru flestir af okkar leiðangursmönnum uppi í búðum 3 og gátu því forðað okkar tjöldum frá þessum örlögum. Litlu mátti þó muna með stóra matartjaldið en það tók 7-8 manns að halda því og bjarga.
Það má segja að það hafi verið óveðursútkall hjá Hjálparsveitarmönnunum þremur því þeir voru á stöðugum þönum frá klukkan 5 til kl. 11, fyrst við að bjarga okkar tjöldum og svo við að bjarga því sem bjargað varð hjá öðrum leiðöngrum því tjaldbúðir annarra þar efra voru fámennar. Upp úr níu fylltist tjaldið hjá okkur hér í grunnbúðum af áhyggjufullum mönnum sem báðu strákana í gegnum talstöðina að huga að tjöldum og bjarga búnaði. Það var samt ekki við allt ráðið og er hátt á þriðja tug tjalda ýmist fokið eða ónýtt, m.a. malaysiska matartjaldið með öllu sem í því var. Það er ljóst að Malaysiumenn og fleiri eru í vandræðum og þurfa að endurnýja búnað á fjallinu.
Það voru ekki of góðar fréttir sem biðu eftir átök morgunsins. Við fengum nýja veðurspá sem gerir ráð fyrir öllu meiri vindi 19. og 20. en fyrri spár. Það er ekki öll nótt úti enn með þær dagsetningar en því miður hafa möguleikar á skikkanlegu veðri þá minnkað.

Efst

Grunnbúðum, 15. maí
Við fengum nýja veðurspá í morgun. Hún gerir ráð fyrir minnkandi vindi 18. og 19. maí og jafnvel þann 20. en að svo auki í vind að nýju. 18 maí er gert ráð fyrir 45 hnúta vindi en þann 19. á að vera 30 hnúta vindur. Nú gefast því skyndilega tveir dagar, 19. og 20. maí sem möguleiki ætti að vera að reyna við tindinn. Þetta er stuttur tími og veðurspá má ekki bregðast mikið til að þessi veðurgluggi, eins og talað er um hér, lokist. Við munum hins vegar ekki bíða lengur og það hefur verið ákveðið að láta vaða þann 19. Leiðangursmönnum hefur verið skipt í tvo hópa í stað þriggja áður enda tími orðinn naumur. Okkar menn eru í fyrsta hóp ásamt þeim Chris Watts, Chris Brown og Nick. Þeir munu skv áætluninni fara úr búðum 3., þar sem þeir eru nú, upp í búðir 4. laugardaginn 17. maí og upp í búðir 5 í Suðurskarði daginn eftir, 18 maí. Þá um kvöldið munu þeir svo, ef veðurspá stenst, leggja á toppinn. Tindinum gera þeir svo ráð fyrir að ná, ef allt gengur að óskum, að morgni 19. maí.

Það er mikill léttir að fá loksins skárri veðurspá þótt hún hefði mátt vera betri, því 30 hnútar er ekki lítill vindur. En það hefur oft blásið hvassar um þá félaga, Björn, Einar og Hallgrím og þeir eru hvergi bangnir, nú þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Efst

Grunnbúðum, 14. maí
Í nótt blés duglega hér í grunnbúðum, svo duglega, að sumir þurftu að hlaupa út á nærbuxunum til að elta þvottinn sinn. Í 3ju búðum blés ekki minna. Björn lýsti því sem svo að hann hefði búist við að leika flugdreka á hverri stundu, svo mikið var rokið í nótt. Í dag hefur lægt töluvert, og í morgun lagði leiðangursstjórinn Jon Tinker af stað upp í 3. búðir ásamt Eric. Eitthvað fóru þeir mishratt, Tinker var kominn fyrir hádegi, og í hádeginu spurðu okkar menn, hvort Eric væri kominn aftur niður. Svo var nú ekki. En heldur er að fækka hér í grunnbúðum, og á morgun fer síðasti hópur fjallgöngumanna upp í 3ju búðir. Þá verða samankomnir þar allir klifrarar, nema Mark, sem enn leitar heilsunnar niðri í Dinboche.

Efst

Grunnbúðum, 13. maí
Loksins hélt einhver af stað upp í fjall, og vitaskuld voru það okkar menn sem riðu á vaðið. Kl. 4.15 að staðartíma, í svartamyrkri, sást á eftir þeim, þar sem þeir héldu áleiðis að Khumbu ísfallinu. Það var heldur napurt veðrið, strekkingsvindur niður jökulinn, en þó ekki mjög kalt. Þeir héldu vel áfram og voru komnir kl. 10 í þriðju búðir. Á morgun er ætlunin að halda kyrru fyrir í þriðju búðum, en samkvæmt veðurspá morgunsins er útlit fyrir breytingar. Vonandi breytingar í rétta átt.

Efst

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn