Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar, Kamp Knox, kom út á laugardaginn.
„Kona rekst á illa farið lík í lóni á Reykjanesi. Árið er 1979 og margt bendir til að sá látni tengist herstöðinni á Miðnesheiði. Erlendur og Marion Briem rannsaka málið en Erlendur er þó um leið með hugann við annað. Áleitin og þétt spennusaga frá Arnaldi; saga um staði sem flestir vilja gleyma,“ segir í umsögn um bókina.
Hér fyrir neðan má lesa kafla 9 í bókinni:
Honum kom ekki á óvart að konan yrði afar undrandi þegar hann
hringdi í hana og bar upp erindið. Hvort hann mætti eiga við
hana orð um bróðurdóttur hennar, Dagbjörtu, sem hvarf morgun
einn fyrir mörgum árum á leið í skólann. Hann heyrði það strax
á viðbrögðum hennar. Löng þögn kom í símann áður en hún
bað hann að segja sér aftur hver hann væri. Hann sagðist heita
Erlendur og vera rannsóknarlögreglumaður og hafa rekist á mál
frænku hennar í gömlum skjölum. Hann hefði áhuga á mannshvörfum
og vildi vita hvort hann mætti heimsækja hana. Hann
tók það skýrt fram, svo að það færi ekki á milli mála, að ekkert
nýtt hefði komið fram í málinu, hún þráspurði um það, og að
engin ný rannsókn væri hafin á því, hún spurði ítrekað um það
einnig. Aðeins væri um að ræða persónulegan áhuga hans. Hann
greindi henni ekki frá því að hann hefði rekist á mál stúlkunnar
fyrir nokkrum árum, fljótlega eftir að hann byrjaði í lögreglunni,
og hefði þá kynnt sér gögn um það og farið margoft á söguslóðir
fullur forvitni. Hann sagði henni ekki heldur hvers vegna hann
hefði loksins eftir allan þennan tíma, hikandi þó, stigið það
skref að hafa samband við ættingja stúlkunnar. Hann vissi það
varla sjálfur. Hann hafði einhvern tíma lofað sjálfum sér því að
gera það ekki vegna þess að hann vildi ekki upplifa sársaukann
sem fylgdi því að standa frammi fyrir mannshvarfi, en svo gerði
hann það samt sem áður. Hann hafði orðið hugsi eftir að hann
las minningargreinarnar um föður stúlkunnar. Á endanum yrði
enginn eftir til frásagnar um það sem gerðist. Enginn eftir til
þess að veita svörin við spurningum sem hann hafði svo oft velt
upp um hvarfið. Og það sem kannski var verst: enginn sem beið
svara við þeim.
Málið hafði fyrir löngu fallið í gleymskunnar dá í vitund
almennings enda rúmur aldarfjórðungur liðinn en þegar hann
hringdi í föðursystur stúlkunnar og bar upp erindið fann hann
strax að það var síður en svo gleymt þar á bæ. Konan var strax
með á nótunum þegar hann hafði gert grein fyrir erindinu. Eftir
að hafa spurt hann nánar um málið og áhuga hans og sannfærst
um að full alvara byggi að baki bauð hún honum heim til sín og
kvaddi með því að þakka honum fyrir að hringja í sig og fyrir
áhugann sem hann sýndi á þessum sorglega missi.
– Ég samhryggist þér vegna bróður þíns, sagði Erlendur þegar
hann hafði komið sér fyrir í stofunni hjá henni. Ég sá að þú
skrifaðir um hann.
Hún þakkaði honum fyrir og lagaði hárlokk sem hafði fallið
fram á ennið þegar hún skenkti þeim kaffi. Hún hét Svava og
var um sjötugt og hafði undirbúið komu hans með því að baka
kleinur og hella upp á sterkt kaffi. Hún sagðist þurfa eitthvað
hjartastyrkjandi með kaffinu og bauð honum staup af Chartreuse
sem hann þáði. Hún lauk úr staupinu í einum sopa og fyllti það
aftur. Flaskan var næstum tóm og hann velti því fyrir sér hvort
hún notaði oft hjartastyrkjandi. Hann dreypti rólega á sínu. Hann
fann strax í símtalinu að hún var ákveðin og ágeng og þoldi
ekkert hálfkák. Hún spurði spurninga og vildi fá svör hjá honum
og engin undanbrögð. Hann gerði sitt besta til þess að verða við
kröfum hennar. Hann vissi ekki mikið um hagi Svövu, sýndist
hún búa ein, börnin uppkomin. Á ljósmynd sem stóð á áberandi
stað í íbúðinni brosti hún framan í myndavél ásamt þremur
drengjum og eiginmanni. Hann gat sér þess til að börnin væru
löngu flutt að heiman. Hann spurði ekki um manninn sem var
með þeim á myndinni. Hugsanlega voru þau skilin. Kannski var
hann látinn. Hún leysti fljótt úr þeirri gátu.
– Þakka þér fyrir, sagði hún, já, mér fannst ég verða að setja
nokkur orð á blað. Mér fannst ég hafa gott af því. Gott af að skrifa
um bróður minn. Það var hjartað. Það er ekkert sérstakt langlífi
í okkar fjölskyldu. Sama kom fyrir manninn minn fyrir fjórum
árum. Þú hefur sem sagt haft áhuga á henni Dagbjörtu okkar í
dálítinn tíma?
– Frá því að ég las fyrst um hana í skýrslum lögreglunnar fyrir
sjö árum eða svo, sagði Erlendur. Ég man ekki eftir atburðunum
sjálfur, er of ungur til þess, en það var talsvert fjallað um hvarf
hennar á sínum tíma og ég hef lesið það allt ásamt skýrslunum.
Um leið hennar í skólann. Kærastann sem hún átti að eiga í
Kamp Knox.
– Og hvað … heldurðu að þú getir komist að því hvað gerðist?
– Nei, ég geri mér engar sérstakar vonir um það, sagði Erlendur.
Þú ættir ekki að gera það heldur.
– Hver er þá tilgangurinn með þessum fundi okkar?
– Mig langaði að hitta þig, kynnast útgáfu fjölskyldunnar af
sögunni ef þú vildir leyfa mér að heyra hana, sagði Erlendur. Þú
mátt ekki halda að ég geti fundið einhverja töfralausn. Þú mátt
alls ekki gera þér neinar gyllivonir. Ég er aðeins …
– Hvað?
– Ég er aðeins að kynna mér það sem gerðist, sagði Erlendur.
– Forvitnast?
– Já, forvitnast, ég skal vera alveg heiðarlegur með það. Ég
hef áhuga á málum af þessu tagi. Mig langar til þess að skoða
sögu hennar betur. Á mínum eigin vegum. Ef ég kemst að einhverju
nýju, einhverju sem varpað getur ljósi á málið, mun ég að
sjálfsögðu segja þér frá því og félögum mínum hjá rannsóknarlögreglunni.
Mig langar að safna upplýsingum um hvarf hennar
og hugsanlega finna nýjan flöt á málinu. Aldarfjórðungur er
liðinn og bráðum verður orðið of seint að … gera eitthvað.
– Þú hefur engan að tala við lengur, áttu við? sagði Svava.
Erlendur kinkaði kolli.
– Báðir foreldrar hennar eru látnir og þegar ég las um bróður
þinn hugsaði ég með mér að ef ég ætlaði að gera eitthvað í
málinu mætti það ekki bíða lengur. Það væri núna eða aldrei.
– Ég skil. Þú ert í kapphlaupi við tímann.
– En eins og ég segi þá ættirðu ekki að gera þér neinar vonir
um að eitthvað nýtt komi fram. Ég legg mjög mikla áherslu á það.
Ég tel mig hafa nokkuð glögga mynd af því sem gerðist eins og
það sneri við almenningi en það er auðvitað ekki nema lítið brot
af sögunni.
Hún horfði lengi á Erlend, mældi hann út með gráum rannsakandi
augum og reyndi að sjá hvort hún gæti treyst honum. Hún
fann að hann hafði komið heiðarlega fram við hana, viðurkennt
forvitni sína, lagt spilin á borðið. Henni fannst það skipta máli.
– Þú ert lögreglumaður? sagði hún.
– Já.
– En þú ert ekki hér á vegum lögreglunnar?
– Nei, og ef þú vilt ekki tala við mig þá skil ég það fullkomlega,
sagði Erlendur.
Svava brosti.
– Þú ert svo alvörugefinn, sagði hún. Svona ungur maður. Af
hverju ertu …? Hvers vegna ertu að þessu?
Erlendur lét standa á svarinu. Hvers vegna gerði hann þetta?
Hvers vegna gat hann ekki látið þetta í friði? Hvers vegna þurfti
hann að ýfa upp gömul sár og fylla huga sinn trega og missi?
– Er það út af þessum sorgmæddu augum? sagði hún. Hefur
einhver sagt það við þig áður? Hvað þú hefur falleg augu?
Erlendur átti ekki von á þessu og fór hjá sér.
– Ég hef áhuga á mannshvörfum, sagði hann.
– Hvers vegna?
– Það hefur fylgt mér lengi. Ég hef áhuga á frásögnum af
hrakningum og mannsköðum. Ég er austan af landi og kannast
við slíkar frásagnir úr heimahögum. Þær hafa fylgt mér alla tíð.
Hún fann að hann var ekki lengur fullkomlega heiðarlegur.
Að hann sagði ekki allan sannleikann og var farinn að loka aftur
þeirri litlu gátt sem hann hafði opnað inn að sér. Þegar hann
svaraði til um áhuga sinn á mannshvörfum leit hann ekki í augu
hennar heldur horfði niður á borðið eins og hann óttaðist að hún
gengi frekar á hann. Hún lét það vera og skipti um umræðuefni.
– Ert þú kvæntur? spurði hún.
– Nei … nei, ég er fráskilinn, sagði Erlendur.
– Nú, það var leitt að heyra.
– Já. Þannig að … núna veistu ýmislegt um mig, sagði Erlendur
og reyndi að brosa. Eiginlega allt, svo að …
– Það held ég nú ekki, sagði Svava og brosti. En nóg samt.
Það hefur enginn spurt um aumingja Dagbjörtu í áratugi og svo
hringir þú einn daginn upp úr þurru. Manni bregður óneitanlega.
Þú ert sá fyrsti sem hefur sýnt henni einhvern minnsta áhuga í
langan, langan tíma. Hvað viltu vita? Hvernig get ég orðið þér
að liði?