Bráðnauðsynlegt að vera í mömmuklúbbi

Ástríður Viðarsdóttir, fyrrverandi blaðamaður og nemi við HR, á tvær ungar dætur. Hún segir að líf hennar hafi umturnast við að verða móðir. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég gef mér það að allar mömmur geri sitt besta, en stundum er það bara ekki nóg og þá þarf að gera aðeins betur. En burtséð frá því þá langar mig að vera skemmtileg, sanngjörn og vinur barna minna og vera þeim fyrirmynd. Þetta er verkefni sem má ekki klikka og þarf maður að leggja sig alla fram.“

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Að bera virðingu fyrir börnunum mínum og tilfinningum þeirra. Það er margt í hugmyndafræði RIE sem ég tel að allir eigi að tileinka sér. Taka utan um börnin, sýna þeim hlýju og láta þau finna að manni þykir raunverulega vænt um þau, hvernig sem þau eru.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

„Það breytist allt og við tekur stærsta áskorun lífsins, að vera allt í einu með ómótaðan einstakling í höndunum sem er algjörlega upp á mann kominn. Því fylgir mikil ábyrgð. Það að vera mamma er stærsta og erfiðasta en jafnframt besta hlutverk sem til er. Mótun einstaklingsins er mikið í þínum höndum, þó að vissulega séu aðrir þættir sem spili inn í.“

Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Þær tilfinningar sem kviknuðu sem ég hafði ekki fundið fyrir áður. Þær tilfinningar eru þær dýpstu sem ég hef fundið.“

Ástríður Viðarsdóttir segir að lífið hafi umturnast við að eignast …
Ástríður Viðarsdóttir segir að lífið hafi umturnast við að eignast börn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum sem móðir?

„Ég gef skít í þann rembing sem ég hef heyrt og séð í kringum mig. Mér finnst ég sjá á samfélagsmiðlum afmæli sem greinilega krefjast gríðarlegs undirbúnings og kosta sitt. Ég vona að það sé undantekning að fólk haldi að svona þurfi afmæli að vera til þess að þau séu ánægjuleg. Því ég held að þetta sé ekki gert fyrir börnin, því börn gleðjast yfir litlu. Það er nóg að það sé gleði í kringum afmæli og aðrar hátíðarstundir.“

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungbarn?

„Ég á tvær dætur og upplifanirnar eru gjörólíkar. Sú eldri var meðfærileg frá fyrsta degi. Maður vissi ekki af henni, hún bara drakk og svaf og byrjaði snemma að brosa. Því var ekki að heilsa með þá yngri. Sú var og er afar kröfuhörð og tekur mikið pláss. Eftir ég átti hana skildi ég mæður sem töluðu um hversu krefjandi það væri að eiga óvært barn.“

Varstu í mömmuklúbbi?

„Já, svo sannarlega og mæli ég eindregið með því. Það er ómetanlegt að geta borið saman bækur sínar við aðrar ungbarnamæður í sömu aðstöðu. Skemmtileg og bráðnauðsynlegt.“

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

„Ég fór á mömmunámskeið með barnið með mér í Hreyfingu. Svo er ég með barn á handleggnum allan daginn og hlaupandi á eftir annarri.“

Fannstu fyrir fæðingarþunglyndi? „Nei, ég var heppin þar.“

Hvernig er fæðingasagan þín?

„Það er nú saga að segja frá því sem endaði með því að báðar voru teknar með bráðakeisara eftir tæplega tveggja sólahringa átök. Þetta var lífsreynsla út af fyrir sig en aldrei mun ég gleyma hversu vel og faglega var að öllu staðið á Landspítalanum. Maður getur oft þakkað fyrir að vera Íslendingur. Það er skömm að því hversu lág laun ljósmæður hafa sem sinna þessu gríðarlega mikilvæga og erfiða starfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda