Hlaðvarpsþátturinn Klikkaðar kynlífssögur er snúinn aftur eftir þriggja ára hlé. Stjórnendur hlaðvarpsins eru Sif Baldursdóttir og Embla Huld Þorleifsdóttir. Þegar þátturinn fór í loftið á sínum tíma varð hann strax arfavinsæll. Í þættinum njóta þær þess í botn að tala um allt sem viðkemur kynlífi. Þær fá til sín góða gesti í suma þættina sem gjarnan deila sínum upplifunum og skoðunum. Þema þáttanna er gleði, húmor og forvitni.
„Okkur líður yfirleitt eins og við séum bara í góðu spjalli, við tvær að deila djúpum leyndarmálum og skoðunum, og gleymum stundum að við séum í upptöku. Þetta eru vangaveltur, reynslu og skoðanir sem við höfum og deilum með okkar hlustendum. Það skemmtilegasta við þetta er að hlustendur eru með okkur í ferlinu, deila sögum sem við lesum stundum upp í þáttum með gefnu leyfi. Einnig koma gestir til okkar í þáttinn og við tvær lærum ýmislegt nýtt og áhugavert um lífið og tilveruna,“ segir Sif og Embla tekur undir þetta.
Þær segja engir tveir þættir séu eins. Þegar þær eru spurðar að því fyrir hvern hlaðvarpið sé játa þær að það sé alls ekki fyrir alla.
„Sumum finnst áhugavert að tala um kynlíf, öðrum ekki. Flest stundum við þó kynlíf, hvers vegna má ekki tala um það? Í þáttunum tölum við um svo margt, það er lítið sem ekki má ræða. Stundum ræðum við mál sem geta talist vera taboo, en markmiðið er að kynnast því óþekkta, hafa gaman, æsast saman og allt þar á milli. Við erum ekki sérfræðingar í þessum málum en fáum til okkar sérfræðinga sem geta svarað þeim spurningum sem við þurfum svör við,“ segir Embla.
Hægt er að hlusta á Klikkaðar kynlífssögur á hlaðvarpsvef mbl.is.