Listafélag Verzlunarskóla Íslands frumsýndi gamansýninguna Allir á svið! eftir Michael Frayn í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar síðastliðinn föstudag. Hlátrasköllin úr salnum heyrðust langt út á götu enda þrusustemning.
Nemendur listafélagsins hafa unnið hörðum höndum að uppsetningu sýningarinnar alveg frá því í sumar undir leikstjórn þeirra Níels Thibaud Girerd og Starkaðar Péturssonar.
„Þetta fjallar um leikhóp, sem er að setja upp leikrit. Þetta er leikrit í leikriti,“ segir Andrea Ösp, meðlimur Listafélags Verzlunarskóla Íslands. „Þetta er bráðfyndið og fær áhorfendur til að gleyma stað og stund.“
Mörg þekkt andlit létu sjá sig og þar á meðal Edda Björgvinsdóttir og Björgvin Franz Gíslason, sem bæði fóru með hlutverk í uppfærslu Þjóðleikhússins fyrir 20 árum. Edda Björgvinsdóttir var þó ekki eina þekkta Eddan á svæðinu, en Edda Falak kíkti einnig á uppfærslu Verzlunarskólans á gamansýningunni.